Kvikmyndir

Valerie a týden divu/ Valerie and Her Week of Wonders

Leikstjórn: Jaromil Jires
Handrit: Jaromil Jires og Ester Krumbachová, byggt á sögu eftir Vitezslav Nezval
Leikarar: Jaroslava Schallerová, Jan Klusák, Helena Anýzová, Jirí Prymek, Petr Kopriva, Josef Abrhám, Karel Engel, Jirina Machalická og Martin Wielgus
Upprunaland: Tékkóslóvakía
Ár: 1970
Lengd: 72mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0066516
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Unglingsstúlkan Valerie öðlast alveg nýja sýn á veruleikann daginn sem hún fær fyrst tíðir. Kærastinn reynist vera bróðir hennar og trúrækin amma þeirra er táldregin af Merði, afturgengnum biskupi sem umbreytir gömlu konunni í undurfagra en lævísa blóðsugu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Tékkneska kvikmyndin ‚Undravika Valeríu‘ er draumkennt listaverk sem sniðgengur vandlega allan hefðbundinn frásagnarmáta og einblínir í staðinn á táknrænan hátt á sálarlíf aðalsöguhetjunnar, unglingsstúlkunnar Valeríu. Sjónrænt séð er kvikmyndin hreint augnakonfekt enda gæti nánast hver myndrammi hennar sómt sér á hvaða stofuvegg sem er. Tónlistin er sömuleiðis einstök, svo gullfalleg og vönduð að hún ein væri næg ástæða til að sjá kvikmyndina oftsinnis.

Kvikmyndin var gerð tveim árum eftir innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu þegar rauði herinn braut frjálsræðisöflin á bak aftur og kom á kommúnískri harðlínustefnu á nýjan leik. Ekkert fékkst birt nema það samrýmdist stefnu flokksins og sættu kvikmyndagerðarmenn sérstaklega ströngu eftirliti. Til að geta komið skoðunum sínum óáreittir á framfæri urðu listamennirnir oftar en ekki að tileinka sér margrætt táknmál, sem ekki væri hægt að hanka þá á, en fyrir vikið þróaðist nokkuð annar frásagnarmáti hjá mörgum austantjaldskvikmyndagerðarmönnum en tíðkaðist á Vesturlöndum.

Ástæðan fyrir því að gerð kvikmyndarinnar ‚Undravika Valeríu‘ fékkst leyfð á valdatíma kommúnista þrátt fyrir að vera óvenjuhlaðin trúartáknum er eflaust framsetningin á kristindóminum. Rómversk-kaþólska kirkjan og allt sem hún stendur fyrir rennur saman í eitt með þjóðsögum fyrri alda, blóðsugum, afturgöngum og töfrum. Prestur fjölskyldunnar er auk þess einstaklega siðspilltur, eltir á röndum unglingsstúlkur sem vart eru komnar af barnsaldri, heldur við ömmuna og stundar nornaveiðar. Samt er alls óvíst hvort fjandskapur í garð kristninnar hafi verið megintilgangur Jaromils Jires og annarra aðstandenda myndarinnar, enda er aðlaðandi mynd dregin upp af Valeríu sem einlægri stúlku er lifir og hrærist í margþættum veruleika trúarinnar. Jafnvel má finna í Valeríu vissa vísun í Jesúm Krist, þar sem hún er tekin höndum fyrir tilstilli fulltrúa trúaryfirvaldsins og brennd á báli, en við það stígur hún niður til undirheimanna en sleppur loks heilu og höldnu aftur til mannheima. Hjálpræðið er meira að segja sagt vera í blóði hennar og dúfan, tákn heilags anda, útgengur reglulega frá henni. Reyndar endar myndin á draumsýn kommúnista um hið stéttlausa þjóðfélag, þar sem allir eru orðnir jafnir og nunnurnar njóta hamingjunnar með almúganum meðan presturinn er læstur inni í stóru fuglabúri. Samt er allt eins hægt að líta á lokaatriði myndarinnar sem paradísarsýn kristninnar þar sem kærleikur og sátt ríkir loks meðal manna og dýra og allir eru hamingjusamir. Ef tilgangurinn með kvikmyndinni var gagnrýni á kristindóminn, hefur henni allavega verið fremur beint að trúarstofnuninni en einstaklingstrúnni.

Kvikmyndin ‚Undravika Valeríu‘ verður sjálfsagt seint talin auðskilin en hún er engu að síður einstaklega aðlaðandi listaverk sem full ástæða er til að eignast og íhuga.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3:1-7, 2M 20:14, 5M 5:18
Persónur úr trúarritum: blóðsuga, afturganga
Guðfræðistef: paradís
Siðfræðistef: freisting
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: dúfa, talnaband, kross, krossfesting, tarotspil, Maríumynd með Jesúbarnið
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, fyrirbæn, nornabrenna, töfrar, brúðkaup, signing, guðsþjónusta (fyrir meyjar)