Kvikmyndir

Vengeance Trail

Leikstjórn: Pasquale Squitieri [undir nafninu William Redford]
Handrit: Mónica Felt og Pasquale Squitieri [undir nafninu William Redford]
Leikarar: Leonard Mann, Ivan Rassimov, Klaus Kinski, Elizabeth Eversfield, Steffen Zacharias, Salvatore Billa og Enzo Fiermonte
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1971
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0067931
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Stórskyttan Jeremía Bridger drepur alla Indíána, sem hann kemst í tæri við og selur höfuðleður þeirra í þeirri trú, að þeir hafi átt sök á dauða foreldra hans og systur þegar hann var enn barn að aldri. Hann gengur hins vegar til liðs við Indíánana um leið og hann kemst að því að hann hafði haft þá fyrir rangri sök og segir í staðinn kaupsýslumanninum Perkins og mönnum hans stríð á hendur, en þeir höfðu framið morðin dulbúnir sem Indíánar í von um að geta sölsað undir sig sem mest af landi þeirra og kotbændanna á svæðinu.

Almennt um myndina:
Afar slakur spaghettí-vestri með óvenju slæmri enskri talsetningu. Ivan Rassimov og Klaus Kinski eru reyndar fínir í hlutverkum skúrkanna en það dugar samt ekki til að bjarga myndinni fyrir horn. Það er synd því að það hefði verið hægt að gera þessa kvikmynd mun betri. Sérfróðir spaghettí-vestra aðdáendur hafa reyndar bent á að þessi útgáfa myndarinnar sé verulega stytt, en ósennilegt er að óstytta útgáfan hafi verið mikið betri.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin er einnig þekkt undir titlinum Three Amens for Satan og kemur meira að segja þýzki titillinn Drei Amen für den Satan í stað þess enska í upphafi hennar á DVD disknum þrátt fyrir að talsetningin sé á ensku. Á kápu DVD disksins nefnist myndin hins vegar Vengeance Trail og raunar einnig í auglýsingarsýnishorninu (trailernum), sem fylgir með á disknum. Vísunin í djöfulinn í titlinum Three Amens for Satan varðar sennilega fólskuverk aðalskúrksins í myndinni en gæti einnig átt við hefndarþorsta aðalsöguhetjunnar, sem bitnar lengst af á saklausum Indíánum.

Þema kvikmyndarinnar er í anda lögmálsákvæðisins ‚auga fyrir auga, tönn fyrir tönn‘, en að öðru leyti er ekkert trúarlegt við hana. Enda þótt aðalsöguhetjan heiti Jeremía, á hann ekkert skylt með spámanninum Jeremía í Gamla testamentinu. Reyndar kemur munkur aðeins við sögu en hann reynist dulbúinn skottulæknir.

Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, þrælahald, kynþáttahatur
Trúarbrögð: Indíánatrúarbrögð