Leikstjórn: Antonio Margheriti [undir nafninu Anthony Dawson]
Handrit: Antonio Margheriti og Renato Savino
Leikarar: Richard Harrison, Claudio Camaso, Sheyla Rosin, Freddy Unger, Alan Collins, Guido Lollobrigida og Ignazio Spalla
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1968
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063159
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Rocco skýtur einn af öðrum þá þrjóta, sem sviku hann um ránsfeng úr miklu gullráni og drápu félaga hans með hrottafengnum hætti.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Á ítölsku er nafn þessa spaghettí-vestra Joko invoca Dio … e muori en það mun þýða á íslensku ‚Joko ákallar Guð … og deyr‘. Ekki er hins vegar alveg á hreinu hver þessi Joko er, því að enginn með því nafni kemur við sögu í ensku talsetningunni á DVD útgáfunni frá Image Entertainment.Einna helst gæti það hafa verið félagi Roccos, sem festur er lifandi á milli fimm hesta og slitinn í sundur í upphafi myndarinnar, eða einhver af þrjótunum, sem sendir eru til ‚helvítis‘ hver á fætur öðrum, en í þessari talsetningu ákallar samt enginn þeirra Guð fyrir andlát sitt. Rocco kemur auk þess vart til greina því að hann kemst lífs af úr myndinni. (Vonandi hef ég ekki eyðilagt spennuna fyrir neinum með því að ljóstra uppi um það.)Þó svo að hvergi sé minnst á lögmál Gamla testamentisins um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, er hefndarþema myndarinnar engu að síður í fullu sæmræmi við það. Sjálfur er Rocco kallaður dýrlingur af almenningi fyrir að losa þá við illþýðið og er talað um uppgjör hans við þrjótana sem krossferð gegn illskunni. Engu að síður er ljóst að hefndarþorstinn er það eina, sem knýr Rocco áfram, enda ótíndur þjófur sem ætlaði að ræna fjölda manns aleigunni en var svikinn af félögum sínum.Þrátt fyrir tiltölulega einfaldan söguþráð er óhætt að mæla með þessum spaghettí-vestra, enda stórglæsilegur frá upphafi til enda, ekki síst myndataka Riccardos Pallottini sem er einstaklega flott. Jafnvel Leslie Halliwell, sem sér kvikmyndum flest til foráttu og gefur þeim sjaldnast stjörnur, gefur þessari eina og segir formið vinna þar sigur yfir innihaldinu.
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Persónur úr trúarritum: dýrlingur
Guðfræðistef: frelsun, helvíti
Siðfræðistef: hefnd, manndráp, kynþáttahatur
Trúarleg tákn: heillagripur