Eiga kirkja og bíó fleira sameiginlegt en hreyfanleikann? Já, tengingarnar eru margvíslegar og ekki bara að kvikmyndir hafa í áratugi verið sýndar í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Margar myndir hafa verið gerðar um ævi og störf Jesú.
Enn fleiri kvikmyndir eru síðan til um Jesútýpur, svonefnda kristsgervinga. Flestar kvikmyndir sýna eða snerta eitthvert trúarlegt atriði og margar fjalla beinlínis um mál sem varða siðferði, trúartúlkun og siðfræði. Starf þjóðkirkjunnar verður æ fjölbreytilegra og nýir starfsþættir eru teknir upp. Einn er sýning kvikmynda í safnaðarheimilum. Tilgangurinn er jafnan að gefa fólki tækifæri að sjá myndir saman, sem hafa einhverja trúarlega skírskotun og eru tilefni íhugunar og umræðu um líf, trú og gildi einstaklinga og samfélags.
Hvernig?
Fyrsta skrefið er að íhuga tilganginn. Hver er markhópurinn og hvað þjónar honum best?
Hvernig er best að bera sig að við slíkar sýningar? Fyrsta skrefið er að íhuga tilganginn. Hver er markhópurinn og hvað þjónar honum best? Hvaða myndir eða myndategundir megna að vekja áhuga og spurningar? Er markmiðið að þjóna þeim sem koma jafnan í kirkju eða einhverjum sérstökum aldurshóp? Er markhópurinn fólk sem lítið hefur tekið þátt í hefðbundnu starfi kirkjunnar, en gæti hugsað sér að sækja bíósýningu og ræða málin? Jesúmynd hentar einum hóp og gamanmynd öðrum.
Bond?
Möguleikarnir eru margir. James Bond-myndir eru varla fyrstu myndirnar sem fólki dettur í hug að sýna í safnaðarheimili, en þó hafa þær verið sýndar í íslensku kirkjusamhengi til að ræða trú og karlmennsku. Máli skiptir að greina vel samhengi og hvað gæti kveikt í fólki. Kvikmyndasýningar henta vel í ákveðnum þáttum barnastarfs, í fermingarfræðslu og unglingastarfi. En margt fullorðið fólk, líka aldrað, hefur gaman af að horfa á og ræða kvikmyndir. Það kemur fólki gjarnan á óvart hversu gjöfular kvikmyndir geta verið þegar næði fæst til að greina, skoða og ræða.
Langir laugardagar og kvöldsýningar
Þegar markmið og markhópar hafa verið greind má huga að myndum, fjölda skipta og fyrirkomulagi. Nota má dagpart, t.d. kvöld til sýningar en líka heilan dag um helgi. Langur laugardagur með tveimur eða þremur kvikmyndum gæti t.d. verið besti kosturinn. Í hugum flestra Íslendinga eru veitingar eðlilegur hluti bíósýninga. Ef sýning er að kvöldlagi má nýta kvöldverð til kynningar. Hvernig kost menn reiða fram er vitaskuld mál hvers og eins – en kirkja ætti jafnan að vera vörður gæða!
Innlýsingar
Sýningarupplifunin getur orðið fyllri ef henni er fylgt úr hlaði með stuttri kynningu um kvikmyndafræði og trúartúlkanir. Örfyrirlestrar eru hentugri við upphaf en langar ræður. Þar má gjarna opna eða kasta upp viðeigandi spurningum um kvikmyndina. Þeir ættu fremur að minna á túlkunarmöguleika en að loka túlkun með einhverri niðurstöðu.
Eftir sýninguna er ráðlegt að ræða um myndina og kalla eftir tilfinningu og afstöðu áhorfenda. Fyrir sýningu getur umræðustjóri undirbúið nokkrar yddaðar spurningar fyrir samræðuna. Markmið umræðna er ekki að skapa einingu um túlkun, heldur að veita innsýn og efla skilning einstaklinga á blæbrigðum og tengimöguleikum hins trúarlega við eigið líf og annarra. Samræðurnar eiga að þjóna fólki en ekki kvikmyndinni. Kirkjustarf, líka kvikmyndasýningar í kirkjurými, er í þágu lífs og eflingar fólks en einskis annars. Látið myndina rúlla og andann kvikna – Verði ljós.
Sigurður Árni Þórðarson
sóknarprestur í Hallgrímskirkju
s@hallgrimskirkja.is