Um helgina sótti ég hrollvekjuhátíð Bíós Reykjavíkur. Eitthvað hafði dagskránni seinkað og þurfti ég því að bíða í um hálftíma áður en Repulsion (1965) eftir Roman Polanski byrjaði. Mig hafði lengi langað að vita eitthvað um þann hóp sem stóð að Bíói Reykjavíkur og ákvað því að nýta tímann og taka stofnmeðlimina tali.
Vildu skapa vettvang fyrir óhefðbundna kvikmyndagerð
Til svars voru þrír stofnendur hópsins, þeir Gio, Jakob og Örn. Gio var mestan tímann í forsvari fyrir hópinn en aðspurður sagði hann að þeir félagar hefðu stofnað félagið þegar þeir voru á fylliríi. Þeir hefðu viljað skapa vettvang fyrir óhefðbundna kvikmyndagerð og ákváðu því að bjóða kvikmyndagerðamönnum að koma með myndir sínar, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar og sýna þeim hana. Það eina sem þeir þyrftu að gera væri að halda stutta kynningu og svara spurningum að sýningu lokinni. Þeir neituðu að trúa því að það væri ekki verið að gera góðar tilraunakenndar myndir hér á landi og svo virðist sem þeir hafi haft rétt fyrir sér. Frá stofnun hópsins 21. febrúar 2002 hefur þeim borist hafsjór af neðanjarðarmyndum, allt frá opnunarmyndinni „Einn til“ eftir Jakob Halldórsson.
En það er ekki nóg með að þeir hafi dregið óhefðbundna kvikmyndagerð á Íslandi fram í dagsljósið heldur berast þeim einnig fjöldinn allur af myndum utan úr heimi í gegnum vefsíðu þeirra www.bioreykjavik.com.
Vinsælar kvikmyndaveislur
Meðlimir Bíós Reykjavíkur eru aðeins tæpir 10 en það eru um 150 manns á póstlista hjá þeim. Þá er einnig mikil heimsókn á vefsíðuna. Bíó Reykjavík hefur staðið fyrir mörgum góðum og afar vinsælum kvikmyndaveislum. Þar má nefna Kvikmynda maraþonin, Stanley Kubrick maraþonið, Anima Reykjavík og núna hrollvekjuhátíðina.
Það er áhugavert að á þessum hátíðum skuli vanalega boðið upp á mikið af gömlum myndum, allt aftur í þögla tímabilið. En hvers vegna eru þeir að sýna svona gamlar myndir? Svar félaganna var nánast einróma: „Til að mennta almenning og kynna fyrir þeim rætur kvikmyndarinnar, hvaðan þetta allt er komið.“
Bíó Reykjavík hefur fengið inni hjá Mír og eru flestar sýningarnar haldnar þar. En hvernig fjármagna þeir þetta allt saman, þar sem það er ókeypis inn á sýningarnar. Þeir segjast ná inn fyrir kostnaði með því að selja hressingar á sýningum, frjálsum framlögum og með bókaútgáfu en Gio hefur skrifað ítarlega bók um meistara Kubrick.
Góð kynning á gömlum myndum
En hafa þeir ekki lent í vandræðum vegna höfundarréttar? Gio sagði að eina skiptið sem þeir hafi lent í vandræðum var þegar þeir stóðu fyrir Kubrick hátíðinni. Lögreglunni var sigað á þá en með stuðningi áhorfenda héldu þeir samt sýningunum áfram. Þeir þurftu hins vegar ekki að greiða neinar bætur og hafa fengið að vera óáreittir síðan. Þeir telja líka að höfundarlögin séu aðallega sett til að koma í veg fyrr fjölföldun eins og á sér stað í Asíu. Þeir eru hins vegar að kynna kvikmyndir fyrir almenningi en flestar myndanna eru gamlar og oft gleymdar. Þeir eru ekki að græða á þessu enda ókeypis inn. Þeir einu sem græða eru í raun kvikmyndagerðarmennirnir sjálfir því að fólk fær áhuga á myndunum og fer síðar og leigir sér þær eða kaupir. Það gerðist t.d. eftir Kubrick hátíðina, en allt í einu svöruðu myndbandaleigurnar ekki lengur eftirspurn og myndir meistarans seldust eins og heitar lummur.
En hvað er framundan hjá þessum stórhuga kvikmyndaklúbbi? Markmið þeirra er að hafa sýningar á netinu. Kvikmyndagerðarmennirnir myndu fá þar tækifæri til að kynna myndirnar fyrir netverjum, þær yrðu síðan sýndar á netinu og að lokum yrði spurningum netverja svarað. Þá munu þeir bráðlega veita óhefðbundnu kvikmyndaverðlaunin sem þeir kalla Bedda (sem mun vera betra en Edda!). Og auðvitað er hellingur af maraþonsýningum framundan.
Þegar hér var komið við sögu var komið að því að sýna Repulsion og þakkaði ég því félögunum fyrir skemmtilegt spjall og dreif mig niður í MÍR salinn til að endurnýja kynni mín við Roman Polanski.
Þorkell Ágúst Óttarsson, 14/4 2003