3. árgangur 2003, Vefrit, Viðtal

Viðtal við Róbert Douglas

Róbert I. Douglas sló eftirminnilega í gegn með fyrstu mynd sinni í fullri lengd, Íslenski Draumurinn. Margir sögðu myndina marka tímamót í íslenskri kvikmyndagerð, þar sem loksins hafi verið gerð kvikmynd sem var laus við bókmennta og leikhúsáhrifin. Sumir gengu svo langt að segja að Íslenski draumurinn hafi verið fyrsta íslenska kvikmyndin. Þótt næsta mynd Róberts, Maður eins og ég, hafi ekki slegið eins vel í gegn og Íslenski draumurinn fékk hún engu að síður mjög góðar viðtökur.

Undirritaður mælti sér mót við Róbert á Hótel Borg og tók hann tali. Þegar ég mætti á staðinn var Róbert þegar kominn. Hann sat við borðið með kaffibollan í annarri hendi og sígarettu í hinni. Allt í fasi hans ber þess merki að kaffistaðir og bóhemlíf á vel við hann.
Mynd 1: Leikstjórinn Robert Douglas ásamt leikara í einni af myndum sínum.

Nokkrum dögum áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn boðið fólki á íslenskar kvikmyndir í bíó og tók ég eftir því að báðar myndir Róberts í fullri lengd voru sýndar á hátíðinni. Því var ég forvitinn um hvernig þetta hafi komið til.

„Þetta kom mér ekkert við“, sagði Róbert og brosti. Það var framleiðandinn sem ákvað þetta. Ég er algjörlega óflokksbundinn. Mynd Friðriks, Englarnir, var einnig sýnd þarna. Framleiðandinn lét mig vita en ég hafði ekkert sérstaklega á móti þessu. Ég hafði bara gaman af því að sjálfstæðismenn væru að sýna mynd sem hefur vinstri boðskap, ef það er pólitík í þessu á annað borð. Reyndar má þakka Sjálfsæðisflokknum og Framsókn að við fengum styrk til að gera myndirnar.

Nú ert þú að verða þrítugur Róbert. Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Það fer eftir því við hvað þú miðar. Þegar ég var tveggja ára ætlaði ég að verða vörubílsstjóri. En það breytist margt. Ég var alltaf staðráðin í því að verða einhvers konar listamaður. Ég teiknaði mikið þegar ég var lítill. Ég var mikill aðdáandi teiknimyndasagna eins og Tinna og Lukku Láka. Ég teiknaði margar sögur sjálfur. Þegar ég var í gaggó fór ég á teiknimyndagerðarnámskeið. Kennarinn hvatti mig til að teikna meira. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á teiknimyndum, eins og t.d. Disney. Þegar ættingjar spurðu mig hvað ég ætlaði að verða sagðist ég ætla að gera teiknimyndir. Í námskeiðinu uppgötvaði ég hvað þetta var erfitt og leiðinlegt. Að teikna 1000 myndir af nánast því sama til að láta þær hreyfast.

Á þessum tíma var ég farinn að horfa á hryllingsmyndir. Þessar lélegu, eins og Friday the 13th. Það var aðallega leikstjórinn Larry Coen (Skrifaði Phone Booth), sem gerði myndina The Stuff. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þeirri mynd, en hún er ekki góð. Já og ekki má gleyma John Carpenter. Á þessum tíma áttaði ég mig á því að á meðan teiknimyndirnar voru erfiðar, var þetta auðvelt. Þá fór ég að gera stuttar hryllingsmyndir á 8mm myndavélina hans pabba. Þegar ég fór í menntaskólann fór ég í Vídeófélagið og gerði stuttmyndir þar. Það er allt lélegum hryllingsmyndum að þakka að ég varð leikstjóri, þar sem maður sá hvað þetta var auðvelt. Þetta var því ekki vitrun eftir hafa horft á einhverja Kubrick mynd.

Síðan fór maður að spá af meiri alvöru í hryllingsmyndir, svona gæðamyndir á borð við The Exorcist og The Omen. Það var ekki fyrr en í menntaskólanum að maður fór að hugsa um Federico Fellini og frönsku nýbylgjuna. Það var töluvert um kvikmyndahátíðir þegar ég var í menntaskóla. Þar var ekki bara verið að sýna Betty Blue, heldur einnig frönsku nýbylgjuna. Og svo sótti maður auðvitað Aðalvídeóleiguna þess á milli.

Það hafa alltaf verið nokkurn vegin sömu leikstjórarnir sem hafa haft áhrif á mig. Auðvitað eru einnig til myndir sem ég hef gaman af, en hafa ekki mikil áhrif á mig. Ég horfi t.d. oft á Dumb and Dumber en ég myndi aldrei gera slíka mynd. Leikstjórarnir sem hafa haft hvað mest áhrif eru fyrst og fremst Woody Allen og Lukas Moodysson. Mér finnst Lukas vera einn fremsti kvikmyndagerðarmaður í dag. Maður vill stefna að því að vera eins góður og hann. Ég er einnig mjög hrifinn af David Lean, Bernardo Bertolucci og John Cassavetes.


Mynd 2: Úr kvikmyndinni Maður eins og ég.

Kemur spuninn í myndum þínum þaðan?

Já, en samt er hann með miklu meiri spuna. Þar er nánast ekkert handrit. Mér finnst ég vera undir miklum áhrifum frá Jean-Luc Godard, sérstaklega þegar ég gerði stuttmyndirnar. Ég man eftir því að ég hugsaði oft til hans þegar ég gerði Íslenska drauminn. Sérstaklega Breathless. Mér finnst hann ennþá jafn ferskur og hann var þá og heillast af tækni hans við að segja sögu. Ken Loach hafði einnig áhrif. Það er merkilegur leikstjóri og Martin Scorsese auðvitað. Það var einn fyrsti leikstjórinn sem maður fór að horfa á eftir hryllingsmyndirnar.

Þetta eru allt leikstjórar frá Evrópu og Ameríku. En hvað með leikstjóra fyrir utan þær heimsálfur?

Wong Kar-Wai. Maður varð auðvitað fyrir áhrifum við að horfa á myndirnar hans. Hann er snillingur. Á menntaskólaárunum byrjaði maður að hafa áhuga á íslenskum kvikmyndum. Okkur þótti Friðrik Þór jafn merkilegur leikstjóri og Martin Scorsese. Við fórum t.d. að sjá The Age of Innocence, sem okkur fannst miðlungs mynd á hans mælikvarða, sem væri gott fyrir venjulega leikstjóra. Það sama fannst okkur um Bíódaga. Þótt hún hafi ekki haldið þeim sessi. Sódóma Reykjavík, Land og synir og Óðal feðranna hrifu mig einnig. En það var Friðrik sem setti okkur á kortið. Manni finnst íslenskar kvikmyndir eitthvað merkilegri eftir að hann kom fram með sinn heilsteypta stíl.

Nú varst þú löngum orðinn þekktur fyrir stuttmyndir þínar, enda áskrifandi að verðlaunum stuttmyndahátíðarinnar. Það er hins vegar nokkuð erfitt að nálgast þessar myndir. Stendur til að gefa þær út eða að láta þær fylgja með sem aukaefni á DVD diskum?

Það er ein til á myndbandaleigum, Helvítis Reykjavík. Það var gefið út safn af stuttmyndum, en myndin frá mér finnst mér einhver sú sísta af stuttmyndunum. Það er alveg sjálfgefið að setja þetta með sem aukaefni. Það má vera að maður setji þetta með á Maður eins og ég eða geymi það til betri tíma.

Nú ertu menntaður í fjölmiðlafræði en nær sjálfmenntaður í kvikmyndafræði. Finnst þér það hefta þig í list þinni á einhvern hátt eða vera þér til framdráttar?

Ég hef ekkert hugsað út í það. Ég held að það sé hvorugt. Það góða við að fara í nám er að maður kynnist fólki. Nær kontakt. Þar er mikið af tækifærum. Maður lærir ekkert meira þar en maður getur gert sjálfur. Þessar bækur og fræði er hægt að nálgast án þess að greiða milljónir. Maður þarf að hafa meira fyrir þessu ef maður er sjálfmenntaður. En þá getur maður komið sér á framfæri á stuttmyndahátíðum. Það er því ekkert slæmt eða gott við að læra. Maður útskrifast ekki sem einhver Oliver Stone. Það er sumt sem ekki er hægt að kenna manni.

Snúum okkur að Íslenska draumnum sem sló eftirminnilega í gegn hér á Íslandi. Margir hafa bent á að loksins hafi komið íslensk kvikmynd sem var laus við bókmenntaarfinn. Var það meðvituð ákvörðun þín að valda þessum straumhvörfum?

Nei, auðvitað er það gjörsamlega ómeðvitað. Þetta snýst um það hvernig maður er alinn upp við að horfa á endalausar hryllingsmyndir og vídeó og lesa teiknimyndir og fl. Þetta eru bara áhrif þessarar kynslóðar. Ég held að þetta eigi bara eftir að versna. Margir lesa helling inn í myndirnar sem ég hef ekkert pælt í. T.d. að Íslenski draumurinn sé nútíma útgáfa af Sjálfstæðu fólki. En ég hef aldrei lesið þá bók. Auðvitað er hellingur meðvitaður en svo koma fræðimenn og sjá eitthvað sem er ekki þarna. Það er verið að gera mann að meiri intellectual en maður er. Fræðimenn þurfa oft að lesa eitthvað inn í myndirnar. Það var hugmynd hljóðmannsins að klippa upphafsatriðið fremst. Þar var engin hugsun að baki. Maður getur ekki sagt að þetta sé allt hugsunarlaust. Það er auðvitað einhver samsvörun. Ef maður hefur sjálfstraust á maður að geta viðurkennt þetta.

En er eitthvað að því að lesa eitthvað inn í myndirnar?

Nei, alls ekki. Í flestum tilvikum er þetta tilviljun eða slys. Svo gerist það oft að menn sjá ekki punktana sem skipta máli. Þegar maður les gagnrýnina fær maður á tilfinninguna að maður sé áhorfandi og finnst maður ekki hafa gert þessa mynd. Ég hef sérstaklega gaman af því að hlusta á gagnrýni Ólafs H. Torfasonar. Hann hefur gagnrýnt myndir mínar frá upphafi, einnig stuttmyndirnar. Hann sér alltaf mikla dýpt í þeim og setur fram mjög frumlegar túlkanir.

Það er í fínasta lagi að fólk lesi inn í myndirnar en leikstjórinn á ekki að þurfa að svara fyrir verkið. Myndin er tilbúin og farin frá manni og maður nennir ekki að gerast gagnrýnandi sjálfur. Ef ég hefði haft áhuga á gagnrýni hefði ég farið út í hana. Þetta er sitt hvor hópurinn.
Mynd 3: Úr myndinni Maður eins og ég.

Myndin er einnig rómuð fyrir það að leikurinn er laus við alla tilgerð. Hvað gerðir þú til að losa leikarana við leikhúsleikstíl?

Mér finnst leikarinn skipta mestu máli þegar handritið er tilbúið. Ég hef alltaf reynt að vinna mikið með leikurum. Sumir koma úr leikhúsinu og þá er erfiðara að koma þeim inn í þennan stíl. Til að byrja með hefur þetta eitthvað með díaloginn að gera. Ef textinn hljómar eitthvað tilgerðalega er honum bara breytt. Það sem lítur vel út á pappír hljómar ekki endilega vel. Leikstjórar átta sig oft ekki á því að það sem er rétt og vel skrifað er ekki alltaf rétt talað. Svo þarf maður að ná leikurunum niður ef þeir koma úr leikhúsinu. Mér finnst leikarar hafa breyst. Menn eru miklu meðvitaðri um kvikmyndaleik í dag, en þeir voru áður fyrr. Ég hef aldrei verið hrifinn af leikhúsinu. Ég get talið á fingrum annarrar handar þau skipti sem ég hef farið í leikhús. Þetta er tvennt ólíkt. Leikarar úr leikhúsi og óreyndir leikarar eru jafn óreyndir fyrir framan myndavélina. Ég gæti t.d. ekki leikstýrt á sviði. Þetta er nefnilega ekki sami hluturinn. Leikari úr leikhúsinu þarf því að núllstilla sig. Það skiptir ekki máli þótt þeir brilleri á sviðinu, þeir verða að koma með kvikmyndaleik.

Nú er mikið um spuna í Íslenska draumnum. Hve mikið var skrifað sem handrit og hve mikið var spunnið? Og hvernig fer maður að því að skrifa handrit sem byggir að stórum hluta á spuna?

Handritið var skrifað upp úr stuttmyndinni. Það var fullklárað. Við fylgdum því eftir hvað söguþráð og strúktúr varðar. Ég gaf síðan leikurunum frelsi til að umorða textann. Tóti og Jón Gnarr fengu hins vegar mikið frelsi. Allt sem var í handritinu var tekið upp og síðan var svona 30% spuna bætt við.

Hvers vegna valdir þú dogmastíl fyrir Íslenska drauminn?

Mér finnst þetta ekki vera dogma heldur Godard og franska nýbylgjan. Mér fannst rökrétt að fara úr hráum stuttmyndum í hráa kvikmynd sem gerð væri á vídeó, með lítilli tækni og auðveld í framkvæmd. Þetta var allt lítið í sér. Mjög auðvelt og þjónaði sögunni. Ég held ekki að myndin hefði orðið miklu betri með filmu og ljósabúnaði. Þetta var því auðveldara skref frá stuttmyndunum.

Skiptir þú þér eitthvað af kvikmyndatökunni, þ.e. staðsetningu og uppbyggingu rammans í myndinni? Kemur þú t.d. eitthvað að story-boardinu [en svo kallast teikningar sem stundum eru gerðar sem sýna hvar kvikmyndavélin á að vera staðsett og hvernig myndramminn á að líta út] eða vorið þið kannski ekki með neitt story-board fyrir myndirnar?

Við vorum ekki með neitt story-board við Íslenska drauminn. Við vorum með tvær kamerur. Ég var oftast á annarri og Júlíus Kemp á hinni. Kvikmyndatökumaður frá Póllandi var á vélinni í Maður eins og ég. Ég hef skipt mér af myndrammanum en í Maður eins og ég fann ég að ég gat treyst kvikmyndatökumanninum fullkomlega fyrir því sem hann var að gera. Ég þarf að vinna mjög náið með tökumanninum.

Hvers vegna story-boardarðu ekki?

Mér finnst það ekki þjóna neinum tilgangi. Við erum búnir að tala saman í 1-2 mánuði. Þá þurfum við ekkert story-board. Einstaka sinnum teiknum við á settinu.

Tóti er með eftirminnilegri íslenskum kvikmyndapersónum. Er hann byggður á einhverjum sem þú þekkir?

Hann er byggður á nokkrum persónum sem ég þekki og nokkrum sem Tóti þekkir og okkur sjálfum að einhverju leyti. Maður þekkir svona menn sem þéna nógu mikið í málningarvinnunni til að kaupa sér BMW en ekki nógu mikið til að flytja út frá mömmu.

Íslenskir karlmenn koma ekkert mjög vel út í myndum þínum. Þeir eiga það sameiginlegt að vera veruleikafirrtir, aumingjar, lokaðir, fordómafullir, vitgrannir og tillitslausir. Konurnar eru hins vegar sterkar, sjálfstæðar, vel gefnar og röggsamar. Hvað veldur?

Er þetta ekki bara hógværð? Get ekki sett sjálfan mig á stall. Kannski er það bara það að maður þekkir það svo vel að vera karlmaður. Maður er miskunnarlaus við það sem maður þekkir. Ef þú sæir sterka karlpersónu í mynd eftir mig væri það líklega persóna sem ég gæti ekki samsamað mig nógu mikið við. Sem karlmaður veit maður hvernig við karlmenn erum. T.d. finnst mér konurnar í myndunum mínum ekki eins miklir karakterar. Þær eru frekar flatar. Mér tekst ágætlega með konu sem aukapersónu, en ekki aðalpersónu. En maður þróar sig sem kvikmyndagerðamaður.

Hvað vildir þú segja með Íslenska draumnum og geturðu útskýrt nafn myndarinnar fyrir mér?

Fyrst og fremst langaði mig til að fjalla um Íslendinga fyrir Íslendinga. Ekki um sveitina eða miðbæinn heldur úthverfin, þar sem 80% þjóðarinnar býr. Mér finnst ekki hafa verið gerð mynd um það. Það búa ekki allir undir Snæfellsjökli eða í 101 Reykjavík. Það eru úthverfin, helgarpabbarnir sem flestir þekkja en finnst ekkert áhugavert. Flestir fara í bíó til að flýja þetta. Mig langaði því að gera þannig mynd um raunveruleikann og sjá hvort það tækist. Þetta átti að vera rödd fyrir úthverfin. Við vissum að það var verið að gera 101 Reykjavík svo við reyndum að forðast miðbæinn.

Það er auðvitað hinn íslenski draumur að búa í Grafarvoginum með jeppann sinn, því það er svo barnvænt fyrir 2,5 börnin þín. Þetta er hinn stóri misskilningur, því það er ekkert barnvænt að búa við Smáralindina, þar sem fólk keyrir um á 100. Mér finnst þetta einhver misskilningur. Og myndin fjallar auðvitað um Kreditkortið. Það geta allir orðið milljónamæringar á yfirdrætti. Svo þarf maður bara að sitja inn í mánuð og þá er þetta greitt upp.

Myndir þú segja að egó eða sjálfið sé eitt megið þema myndarinnar.

Já, já! Það er það alveg.

Þótt Tóti lifi alltaf í sjálfsblekkingu þá er hann sínu verri þegar hann kemst í álnir og hvað mest niðri á jörðinni þegar hann hefur glatað öllu. Er það viðhorf þitt að erfiðleikar séu manninum nauðsynlegir?

Upp að vissu marki. Þetta er auðvitað bara einföld saga um mann sem gleymir allri siðfræði þegar hann eignast alla peningana. Nei, það er ekki nauðsynlegt að vera fastur í volæði og einsemd, en oft þurfa menn að taka skrefið til baka og horfa á sjálfan sig.

Í myndinni birtast fordómar í garð homma, kvenna og útlendinga. Varstu að einhverju leyti að fást meðvitað við þessa þætti?

Já, já! Ég myndi segja mjög meðvitað. Þetta tengist því að gera raunsæja mynd. Ég vil ekki prédika of mikið. Ef þú ætlar að gera mynd um þennan þögla meirihluta verður þú að taka allt inn í þetta.Við erum fordómafull þjóð. Þetta sprettur meira af fáfræði okkar. Við erum ekki heimsborgarar og því er fáfræðin hluti af okkar samfélagi. Rasisminn er því meira byggður á sakleysi og fáfræði. En ég held að við færum fljótt í sama farið og Svíar ef við værum stærri þjóð. Það er mikil þjóðerniskennd hérna. Ef við værum stærri þjóð værum við jafnslæm og bandaríkjamenn eða kínverjar. Ég veit ekki hvort við erum fordómafyllri en aðrar þjóðir en þetta þurfti að vera í svona mynd sem fjallar um íslendinga.

Það heillaði mig við báðar myndir þínar að þær sýna Ísland sem fjölþjóðasamfélag, nokkuð sem ég hafði ekki séð fyrr í kvikmyndum, þar sem fólk frá öðrum löndum eru ekki hluti af samfélaginu. Ertu að reyna að segja eitthvað ákveðið með þessu í myndum þínum?

Ég er bara að lýsa upplifun minni af samfélaginu. Raunveruleikinn er sá að þetta er að verða meira fjölmenningarsamfélag. Það eru til Íslendingar sem hafa annan litarhátt. Það eru ekki bara til Íslendingar með blá augu og ljóst hár. Mér finnst þetta eðlileg þróun og það er kominn tími á að hún komist inn í íslenskar sögur. Ég geri þó ekki mikið úr þessum persónum því ég vildi að þær væru eðlilegar.

Varstu ekki smeykur við að ýta undir fordóma í garð kvenna frá Asíu með því að láta Valla búa með konu frá Tælandi, í ljósi þeirra fordóma að allar asískar konur séu keyptar af lúsurum?

Nei, ég var ekki smeykur við þetta. Það kom hvergi fram að hann hafi keypt hana. Að vísu endaði hún í handritinu sem 19. maður á lista samfylkingarinnar og skildi við Valla. Það var kannski of mikið pólitísk rétthugsun og ekki nógu mikill tími til að koma því að. Við höfðum ekki tíma til að gera hana að einhverjum karakter. Ég vildi ekki prédika með myndinni. Þetta er raunveruleiki hjá sumum. Sjáðu bara heimildarmyndina Pam og Noi og mennirnir þeirra. Annar eiginmannanna var bara Valli, á meðan hin tvö voru eðlileg. Þarna ertu með heimildarmynd um raunveruleikann þar sem önnur konan endar með Valla.
Mynd 4: Úr myndinni Maður eins og ég.

Hvers vegna ákvaðstu að hafa tælenskuna ótextaða í myndinni?

Ég man það ekki. Ég held að það hafi verið einhver djúp speki á bak við það. Við textuðum ekki tælenskuna vegna þess að karakterinn var íslensk. Við textuðum hins vegar bandaríkjamanninn vegna þess að hann var meiri túristi. Þetta var líka bara fyndið. Valli blaðraði eitthvað sem var bara bull og hún segir síðan eitthvað sem skilst ekki.

Þegar hér var komið sögu þurftum við báðir að sinna fjölskyldunni og var því afgangurinn af viðtalinu tekið á prikinu, á Laugaveginum, enda hafði kaffið ekki reynst nógu gott á Borginni.

Hvernig kom það til að þú fékkst Matt Keeslar til að leika í myndinni?

Ég var búinn að sjá hann leika í myndinni The Last Days of Disco. Hann var mjög góður í þeirri mynd. Við vildum bara fá einhvern leikara frá Bandaríkjunum sem við höfðum ráð á. Þess vegna fórum við að kíkja á menn í þessum geira og leita að einhverjum sem hafði leikið aukahlutverk eða stórt hlutverk í minni myndum. Við vorum með leikaralista og skrifuðum út. Það voru tveir sem sýndu áhuga, Matt Keeslar og Tobey Maguire, en hann gat ekki byrjað fyrr en eftir hálft ár. Einnig var hann aðeins of ungur í hlutverkið. Matt Keeslar hefur hins vegar ekki náð að vinna eins vel úr sínum ferli og Tobey Maguire.

Var ekki dýrt að fá leikara frá Hollywood?

Maður kemst upp með margt ef maður býður upp á partý á Íslandi, ókeypis skoðunarferðir og fl.

Snúum okkur að Maður eins og ég. Hvers vegna sló hún ekki eins mikið í gegn og Íslenski draumurinn?

Það voru ábyggilega margar ástæður. Til að byrja með auglýsum við hana sem stórskemmtilega gamanmynd, en hún er ekki gamanmynd heldur drama og það olli ábyggilega vonbrigðum. Hún náði samt miklu áhorfi. Það voru margar aðrar ástæður líka.

Varstu ekkert smeykur við það að Jón Gnarr myndi skapa þær væntingar hjá áhorfendum að hér væri gamanmynd á ferð, en ekki rómantískt drama með léttu ívafi.

Nei, en þessar væntingar komu. Fólk hafði aðrar væntingar um myndina.

Hvers vegna réðstu Jón Gnarr?

Mér fannst gott að vinna með honum í Íslenska draumnum. Mér finnst hann mjög fínn leikari. Þegar maður hugsar út í það hefði maður mátt gera meira með þennan karakter. Það var okkur sem skrifuðum handritið að kenna. Hann er of flöt persóna, en Jón gerði þetta vel.

Í Íslenska draumnum er einmitt lag með Bubba þar sem nafn þessarar myndar kemur fyrir, þ.e „Maður eins og ég“. Tengist það lag á einhvern hátt myndinni og hvar fæddist hugmyndin að henni?

Lagið tengist ekki myndinni. Við fengum textann aðeins lánaðan. Okkur fannst þetta bara flottur titill. Hugmyndin að myndinni var sú að mig langaði að taka aðeins betur fyrir þetta fjölmenningarsamfélag og nýbúa. Skrifin þróuðust hins vegar í allt aðra átt og að lokum var myndin um íslending sem var í sambúð með útlendingi. Ég ætlaði í upphafi að gera öfugt, þ.e. um nýbúa í sambúð með Íslendingi. Í grunninn var þetta ekki sú mynd sem mig langaði að gera.

Nú hafa margir leikstjórar sagt að það vesta sem geti komið fyrir mann sé að slá í gegn með fyrstu mynd, því það sé alltaf erfitt að fylgja henni eftir og standa undir væntingum. Upplifðir þú eitthvað slíkt?

Já, já! Ég upplifði eitthvað svona nálægt því. Hins vegar var Maður eins og ég ekki eins mikið flopp og oft gerist með aðra mynd. Það voru miklar væntingar þegar ég gerði myndina. Allt átti að vera stærra og meira og fyrir vikið voru tökurnar bara bölvuð leiðindi. Það sem kemur manni í gegnum þetta er að þegar maður slær í gegn með fyrstu mynd er fólk gagnrýnni á næstu mynd og maður getur lært af því ef maður hlustar. Íslenski draumurinn er ekkert fullkomin mynd. Ég ætla að gera miklu betri mynd í framtíðinni. Í staðinn fyrir að lifa í blekkingu og gera sömu myndina gagnrýnislaust lærir maður af mistökunum ef maður fær almennilega gagnrýni. Vandinn við Ísland er að það er ekki hægt að treysta gagnrýni. Myndin þarf að vera verulega slæm til að fá minna en þrjár stjörnur.

Mér finnst „Maður eins og ég“ vera í anda Woody Allen mynda. Er það eitthvað sem þú ætlaðir þér?

Ég ætlaði ekki vísvitandi að gera Woody Allen mynd.

Svo virðist sem minna sé um spuna í þessari mynd og í raun verður maður ekkert var við hann. Hafðir þú yfirgefið spunaaðferðina og ef já, hvers vegna?

Nei, þetta var svona svipað vinnuferli. Hvorug myndin er hrein spunamynd. Þar sem engin viðtöl eru í þessari mynd er minna um spuna. Fólk fékk að fara frjálslega með textann, en það fékk ekki að skálda nýjan texta.

Í þessari mynd koma aftur fyrir mörg stef úr fyrri myndinni, þ.e. karlmenn sem lúserar, kynþáttafordómar, faðir sem lifir í gömlum poppdraumum (var reyndar klippt út úr Íslenska draumnum), vonlaus vinur, asískar konur, stórir viðskiptadraumar og efnishyggja. Meira að segja Rambó og Bubbi rata aftur inn í þessa mynd. Hvað veldur?

Það er bara út af því að ég skrifa bæði handritin. Áherslurnar eru kannski öðruvísi en heimurinn er sá sami. Það eru einnig sömu stef í Woody Allen myndunum. Hvort sem hann leikur smákrimma eða intellectual hafa persónurnar alltaf sömu áhyggjurnar af dauðanum. Hjá Woody er það Freud, dauðinn, trúin, móðursjúkar konur, eilífðin og hvers vegna við erum til. Hjá mér er það Asískar konur, Rambó, Bubbi, fótbolti, lúserar og efnishyggja. Hvor er meiri intellectual?

Hvernig kom það til að þú fékkst Hong kong leikkonuna Stephanie Che til að leika í myndinni?

Þetta var hugsað þannig að í staðinn fyrir að fá leikkonu héðan ákváðum við að fá þekkta leikkonu frá Asíu. Við völdum Hong Kong leikkonu vegna þess að það er Hollywood Asíu. Við settum niður á blað nokkur nöfn. Á listanum voru fjögur nöfn en við tókum viðtal við tvær þeirra. Mér leist betur á hina en framleiðandinn vildi ekki greiða svo há laun. Þar þurfti að kompromæsa. Stephanie Che stóð sig ágætlega og maður reyndi að gera bara það besta úr þessu. En það stóð alltaf til að önnur leikkona léki þetta.

Hvenær megum við vænta „Manns eins og ég“ á DVD og hvaða aukaefni verður með? Hefurðu íhugað að hafa myndskýringar með? Muntu „transfera“ af filmunni (eins og gert var á myndbandsútgáfunni og kom verulega niður á myndgæðum) eða úr tölvunni, eins og þið gerðuð með Íslenska Drauminn (en myndgæðin eru mjög góð þar). Verður myndin í réttum hlutföllum á disknum?

Já myndin verður í réttum hlutföllum. Við höfum ekki ákveðið hvernig við transferum hana. Það verður hellingur af aukaefni. Við tókum upp mikið af svona Making of og viðtölum með DVD disk í huga. Það er einnig nóg af ónotuðum senum. Fyrsta klippið var þrír tímar og við hentum engu, heldur settum við það í möppu merkt, DVD. Diskurinn kemur líklega út fyrir næsta haust. Hvað kommentera varðar þá fer það eftir því hvort maður nennir að tala um myndina. Mér finnst gaman að heyra leikstjóra tala um myndirnar sínar en ég veit ekki hvort ég nenni því sjálfur.

Nú ert þú að vinna að þriðju mynd þinni í fullri lengd. Geturðu sagt okkur eitthvað um hana?

Hún er um samkynhneigt fótboltalið sem er að spila í utandeildinni. Þetta er svona einföld Rocky saga um menn sem vilja tilheyra hópnum og baráttu þeirra fyrir því að fá að vera með.

Um hvað fjallar hún? Munt þú fást við svipuð þemu og í fyrri myndum þínum?

Nei, ég get ekki alveg sagt það. Þetta er meira svona um einstakling sem er heilsteyptur og sterkur karakter, öfugt við lúserana. Þessi mynd er meira um karakter þar sem þeir sem eru í kringum hann verða að aðlaga sig að honum, ekki öfugt eins og í hinum myndunum. Hún tekur samt á fjölskyldunni. Það eru hlutir sem eru svipaðir, en þetta er önnur saga. Stallone verður þarna og asísk kona, en Bubba vantar. Bruce Springsteen kemur í staðinn.

Hvernig kviknaði hugmyndin að myndinni?

Til að byrja með langaði mig til að gera aðra mynd þar sem fótbolti kemur fyrir. Ég hef alltaf haft áhuga á minnihlutahópum og sósíal þemum eins og brotnum fjölskyldum. Það vantaði mynd um samkynhneigð á Íslandi þar sem fjallað er um líf þeirra, ekki sem aukapersónur. Það hafði enginn fjallað um innflytjendur og það hafði enginn gert mynd þar sem aðalpersónan er samkynhneigð. Hvers vegna ekki? Erum við svona lokuð? Heldur fólk að íslendingar myndu ekki borga sig inn á slíka mynd? Ég held ekki. Ég hefði meiri áhyggur af því að fólk kæmi ekki á næstu víkingamynd. Ef ég vildi fá fólk á víkingamyndina myndi ég gera víkinginn samkynhneigðan.

Skrifar þú handritið einn eða í samvinnu við aðra?

Ég skrifaði Íslenska drauminn einn, en Maður eins og ég með Árna Óla Ásgeirssyni, sem er einnig kvikmyndagerðamaður. Hann hefur gert nokkrar stuttmyndir og er að gera mynd í fullri lengd. Við gerðum fyrstu stuttmyndina sem ég sendi á hátíð saman. Hún heitir Gaddavír í gelgjunni og fékk þriðju verðlaun. Árni Óli komst í pólska kvikmyndaskólann út á hana. Jón Atli Jónsson er að skrifa handritið með mér að þessari mynd.

Mun Júlíus Kemp framleiða myndina?

Já, hann og Ingvar Þórðarson, sem framleiddi 101 Reykjavík.

Hverjar eru þínar uppáhalds kvikmyndir?

Tillsammans, In the Mood for Love, The Big Lebowski. Ég horfi oft á Black Rain þótt ég geri mér grein fyrir því að Blade Runner er betri. En það segir eitthvað að ég set hana svona oft í tækið. Ég hef svo gaman af svona persónum eins og amerísku löggunni í henni. þetta fer allt eftir því hvernig maður er stemmdur. Síðasti keisarinn, finnst mér góð, sem og Lawrence of Arabia, Good Fellas, Once Upon a Time in America (langa útgáfan), Kes, Poor Cow, If…, Breathless, Clouse Encounters of the Third Kind. Dogday Afternoon. Og auðvitað Woody. Hannah and Her Sisters, Crimes and Misdemeanors, Husbands and Wives, Zelig og eiginlega allt sem hann hefur gert. Mér fannst Small Time Crooks æðisleg.

En hvaða myndir hafa hrist upp í þér hvað mest andlega?

Night and Fog. Þetta er stutt heimildarmynd eftir Alain Resnais, um 40 mín. að lengd. Ég hef aðeins séð hana einu sinni . Hún var gerð 10 árum eftir síðari heimsstyrjöldina. Myndin fjallar um Auschwitz og er ein sterkasta mynd sem ég hef séð um stríð eða átök. Það er sama hversu margar myndir maður hefur séð um helförina, þessi hefur meiri áhrif en allar hinar. Svo eru það pólitískar myndir eins og Missing eftir Constantin Costa-Gavras og Z. Svo má nefna The Battle of Algiers og The Falcon and the Snowman. Þær höfðu kannski ekki djúpstæð áhrif en samt einhver áhrif.

Hverjar eru uppáhalds myndir þínar út frá trúar og siðfræðistefjum og hvers vegna?

Ég hef ekki pælt neitt sérstaklega í því en ætli það séu ekki myndir eftir menn sem eiga erfiðara með að trúa, þ.e. efasemdamenn. Eins og Woody Allen. Ég hrífst meira af myndum þar sem efinn er fyrirferðamikill en myndum sem eru beint um trúna eða þar sem menn fá vitrun eða eitthvað yfirnáttúrulegt er að fleyta mönnum áfram.

Nú hefur Lukas Moodysson (leikstjóri Fucking Åmål (Árans Åmål), Tillsammans (Saman) og Lilya 4-ever) sagt að markmið hans með kvikmyndagerð sé að vekja fólk til vakningar um brýn málefni. Hefur þú eitthvað svipað markmið og Lukas Moodysson og finnst þér mikilvægt að leikstjórar hafi eitthvað að segja með myndum sínum?

Já, ég held ég sé að þróast meira í þá áttina. Ég get ekki sagt að ég sé eins þróaður leikstjóri og hann, en ég er sammála honum.

Ertu trúaður?

Nei, ég myndi frekar segja að ég sé mikill efahyggjumaður. Þess vegna tala þær myndir mikið til mín. Ég skil þær betur en trúarmyndirnar. Eins og öllum efahyggjumönnum langar mig að trúa en því meira sem ég hugsa um þetta sannfærist ég betur um að það sé enginn annar æðri máttur. Þetta er auðvitað mjög svört niðurstaða sem fær mann til að leita áfram. Annars endar maður á því að hafa krónískar áhyggur af dauðanum og trúa á sálfræðinginn sinn.

Hins vegar kemur siðgæðið frá trúarbrögðunum, en það er allt annað mál. Trúin er til en ég efast um að það sem trúað er á sé til. Ég hugsa daglega um þessi mál en einfaldasta svarið er að ég sé efahyggjumaður. Ég veit að trúin hjálpar mörgum, en þannig erum við. Trúin getur gert gott og slæmt, rétt eins og svo margt annað. Kommúnisminn gerði gott og slæmt og svo mætti lengi telja. Sem fræði er þetta allt rétt og gott en ég er ekki viss um að þetta sé til, en það gæti hins vegar breyst, eins og svo margt annað.

Áttu þér eitthvert uppáhalds trúarstef eða trúartexta?

Það væri einna helst fjallræðan og auðvitað eins og Ghandi sagði að öll trúarbrögð séu í eðli sínu í grunninn þau sömu. Einnig trúi ég því að það sé eitthvað sem aðgreinir þau, gerir þau sérstök.

Viðtal: Þorkell Ágúst Óttarsson