Kvikmyndir

Viskningar och rop

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Harriet Andersson, Kari Sylwan, Ingrid Thulin, Liv Ullmann, Anders Ek, Inga Gill, Erland Josephson, Henning Moritzen, Georg Årlin, Linn Ullmann, Ingrid von Rosen og Lena Bergman
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1972
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Sögusviðið er sænskur herragarður á fyrri hluta 20.aldar. Þar býr kona á besta aldri, Agnes að nafni, haldin ólæknandi sjúkdómi. Foreldrarnir eru dánir og systur hennar tvær, Karin og María, heimsækja hana sjaldan þannig að hún hefur verið mikið ein með þjónustustúlkunni Önnu og dóttur hennar ungri. Nú liggur Agnes fyrir dauðanum og systur hennar eru komnar til að vera hjá henni því að hún á skammt eftir ólifað. Þær systur eru ólíkar og eiga ekki alls kostar auðvelt með að ná saman og styðja hvora aðra. Minningar koma fram og flækja málin enn frekar. Undir glæsilegu yfirborðinu eru systurnar Karin og María bæði viðkvæmar og óöruggar með sig og lifa báðar í óhamingjusömu hjónabandi.

Agnes hefur aldrei gifst og þjónustustúlkan, sem er einlæg og góðhjörtuð sál, stendur henni nærri og veitir henni styrk, ekki síst þegar á reynir og dauðastríðið nær hápunkti sínum, en þá hrykktir í stoðum systrakærleikans. Karin og María flýja af hólmi, en þjónustustúlkan sýnir hinni deyjandi hluttekningu og gengur á kærleiksríkan hátt inn í þjáningu Agnesar sem deyr í örmum hennar.

Almennt um myndina:
Í mörgum mynda sinna glímir Ingmar Bergman við mannleg vandamál sem upp koma í nánum samskiptum með því að etja saman tveim konum, sem gjarna eru systur eins og í myndunum Þögninni og Meyjarlindinni. Slíka fléttu brostinna væntinga, höfnunar og sektarkenndar og má greina í Hvísl og hrópi, þar sem systur Agnesar leika aðalhlutverkin.

María er á yfirborðinu tilfinningarík og ástleitin eins og Karin í Meyjarlindinni og Anna í Þögninni. Persónurnar sem Ingrid Thulin leikur í þessum myndum (Ester og Karin) eiga það sammerkt að þær geta ekki, eða fá ekki, að njóta sín sem tilfinningaverur. Það er eins og þær fordæmi tilfinningar og eigi erfitt með að taka þátt í gleði og sorgum annarra. Þær virðast kaldar og skipulagðar og hata aðra fyrir eiginleika sem þær af einhverjum ástæðum hafna hjá sjálfum sér. Það kemur í ljós að Karin í Hvísli og hrópi er of veikluð og hrædd til að geta myndað náin samskipti við aðra og hún er hrædd við að elska. Hún líður andlegar kvalir og þjáist af sektarkennd. En María systir hennar er í raun ekki betur á vegi stödd. Bak við elskulegt viðmót hennar er engin staðfesta sem hægt er að byggja varanlegt og gefandi samband á. Hún vill fyrir alla muni komast að Karínu systur sinni, en markmið hennar er ekki að skilja hana í raun og veru eða að henni líði betur. Henni finnst bara að öllum eigi að finnast vænt um sig og dáðst að henni ­ annars er hún einmana og leið. Hún hefur enga samúð með eiginmanni sínum sem hún hefur haldið fram hjá og reynir að fyrirfara sér. Hún fyllist bara undrun og hræðslu þegar hún sér honum blæða og forðar sér. Læknir fjölskyldunnar, sem leikinn er af Erland Josephson, hefur verið elskhugi Maríu. En hann sér í gegnum hana og missir áhugann á henni.

Kvikmyndin er ein af allra bestu myndum Bergmans. Leikararnir, ekki síst leikkonurnar sem unnið höfðu með Bergman árum saman, fara á kostum. Atburðarásin er ekki flókin og fléttan ekki viðburðarík þannig að mikið reynir á túlkunarhæfni leikaranna sem oft eru í nærmynd.

Myndin er fyrsta stórverk kvikmyndatökumannsins Svens Nykvists í lit og bæði form og uppstillingar gegna lykilhlutverki í myndinni. Konurnar eru oftast klæddar í hvítt eins og óðalsetrið að utan, en veggir að innan og gólf eru í rauðum lit ­- rauður er litur sálarinnar hefur Bergman sagt. Mikilvægi lita og forma kemur skýrt fram í senunni þar sem systurnar Karin og María sitja einar uppábúnar í borðstofunni og ræða saman. Þær reyna að átta sig á tilfinningum sínum og afstöðu til hvorar annarrar. Karin er föl, köld og hörð og í svörtum kjól. Skuggarnir í dökku veggfóðrinu bak við hana mynda vængi sem hæfa þessum svarta engli haturs og kulda með stingandi augnaráðið. Baksvið Maríu er annað. Dimmrauð blómin í veggfóðrinu bak við hana gætu verið augu sem horfa makindalega hálflukt yfir sviðið í leit að viðfangi til að nærast á og tilliti að spegla sig í. Hún fær alla samúð áhorfandans að því einvígi sem þarna fer fram yfir borðstofuborðinu.

Sjúkdómur Agnesar og dauðastríð eru sýnd á raunsæjan og miskunnarlausan hátt, svo og vonbrigði, sektarkennd og sjálfsfyrirlitning eða sjálfselska systranna sem er alger andstaða þjónustulundar og góðvilja þjónustustúlkunnar. Samt er yfir myndinni allri ljóðræn fegurð og angurværð sem sameinast söguþræðinum og gengur upp listrænt séð. Hápunkturinn er þegar Agnes hefur loks fengið frið og getur skilið við þennan heim þar sem hún hvílist við brjóst þjónustustúlkunnar. Þessi sena er vísun í Pieta þar sem Kristur hefur verið tekinn niður af krossinum og hvílir í fangi móður sinnar. Eftir hryllinginn sem á undan er genginn skapar þetta atriði hátíðleika og stemningu sem myndin gengur öll upp í.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í mörgum mynda sinna frá miðbiki ferils síns tókst Ingmar Bergman að umbreyta þjakandi hræðslu sinni við dauðann í listræna glímu við spurningar um mannlegar tilfinningar og mannlegt eðli. Í þessu sambandi er forvitnin mikilvæg og hún rekur Ingmar áfram þar sem aðrir kjósa að nema staðar. Þessar spurningar þekkja flestir og glíma við í trúarlífi sínu og listrænni tjáningu.

Við dauðans dyr vakna minningarnar og sér maðurinn þá stundum lífshlaup sitt í einu vetvangi og getur hann dregið af því lærdóma sem aðrir hafa gagn af. Á miðöldum var það mikil list að deyja á réttan hátt (ars moriendi) og verða þannig öðrum til fyrirmyndar. Undirbúningurinn undir dauðann var eins og punkturinn yfir i-ið, staðfesting á því að maður hefði lifað og fórnað sér fyrir háar hugsjónir og verið fjölskyldu sinni, trú og þjóð til sóma. Litið var á dauðann sem opinbera athöfn og voru fjölskyldan og vinir nærstaddir ef hann bar ekki of brátt að. Hinn deyjandi veitti börnum blessun sína, gaf hinum eldri ráð og sættist við óvini sína ef ástæða var til. Best var að deyja sáttur við lífið og síðustu orðin og athafnirnar höfðu sérstaka þýðingu fyrir þá sem eftir lifðu. Ef sá dáni átti óuppgerðar sakir eða hafði horfið af sjónarsviðinu með bráðum hætti gat sálin verið áfram viðloðandi jörðina sem skuggi eða fylgja þess sem hann hélt áfram að elska eða hata. Sálin gat átt erfitt með að skilja við líkamann og yfirgefa jörðina og komast í æðri heima. Hún gat jafnvel komið aftur úr dauðraríkinu, maðurinn gat gengið aftur og orðið að svipi eða draugi.

Ingmar Bergman velti þessum vandamálum fyrir sér frá því hann var drengur og öðlaðist vissa reynslu á þessu sviði. Í tengslum við hjúkrunarheimilið þar sem faðir hans þjónaði sem prestur var líkhús sem vakti áhuga hans. Hann lagði sig því eftir því að komast í vinfengi við húsvörðinn, sem hét Algot og sá um að flytja líkin frá líkhúsinu, þar sem þau voru snyrt eftir krufningu, í kapelluna, þar sem aðstandendurnir kvöddu ástvini sína hinstu kveðju. Algot gekk ekki þegjandi til vinnu sinnar heldur talaði við líkin um dauðstríð og kviksetningu, þ.e. hættuna á því að vera grafinn lifandi. Sjálfur notaði Bergman tækifærið til að virða fyrir sér líkin og jafnvel handleika þau.

Í kvikmyndum Bergmans eru margar ógleymanlegar senur þar sem persónurnar horfast í augu við dauðann og berjast við hann og hafa nokkrar myndir hans þetta að meginþema. Hér má nefna kvikmyndir eins og Sjöunda innsiglið (1957) og Þögnina (1963), en best þeirra er þó myndin Hvísl og hróp, þar sem mögnuðustu og frumlegustu senuna af þessu tagi er að finna ­ þ.e. áðurnefnd Pieta.

Minningarnar streyma fram í huga Agnesar og hún finnur fyrir mikilli einsemd í návist systra sinna og það eykur á þjakandi sársauka sjúkdómsins. Hún er dáin og það er búið að leggja hana til og lesa yfir henni en jarðaförin er eftir. Það er einhver ný stemning í húsinu og María og Karin nálgast hvora aðra aldrei þessu vant. Ástleitni hinar fyrrnefndu hefur opnað ískalt hjarta hinnar síðarnefndu, þjónustustúlkan hefur farið inn til sín að sofa, en þá heyrist eins og það sé grátið í fjarska. Hrollvekjandi stemning færist yfir og það er eins og María og Karin hafi misst máttinn. Þjónustustúlkan fer á stjá og gengur á hljóðið og þegar hún kemur að Agnesi sér hún að augu hennar eru tárvot og andlit hennar ber ekki lengur svip liðins líks. Þjónustustúlkan verður skelfingu lostinn þegar Agnes ávarpar hana. Mögnuð nærvera uppvakningsins skilar sér til áhorfenda vegna þess að Agnes sést ekki lifna við heldur er myndavélin á þjónustustúlkunni og hinum systrunum og skráir sambland undrunar, sorgar og hryllings í svipbrigðum þeirra þegar hin látna biður þær að koma að dánarbeðinu. Hana skortir nándina til að geta skilið við. Atlot Maríu og Agnesar enda í ofsa og hryllingi og þær systur flýja báðar af hólmi eins og áður er getið og skilja þjónustustúlkuna eftir hjá Agnesi.

Karlpersónurnar í myndinni eru mun yfirborðslegri en konurnar og er það ekkert nýtt í myndum Bergmans. Honum gengur miklu betur að vinna með konum jafnvel þegar viðfangsefnið er sótt í hans eigin reynslu og viðhorf. Presturinn er engin undantekning frá þessari reglu. Hann er eins konar aukapersóna sem kemur aðeins við sögu formsins vegna, en hann er athyglisverður að því leyti að hann sver sig mjög í ætt við séra Tómas í myndinni Kvöldmáltíðargestirnir sem var frumsýnd árið 1962.

Presturinn sem jarðsetti Agnesi hafði einnig fermt hana og hann játar við líkbörur hennar að hún hafi þegar sem barn verið trúaðri en hann. Hún vissi hvað það var að trúa og presturinn finnur til vanmáttar gagnvart Guði en trúir á það samband sem hin látna átti við Guð. Þegar hann fer með bæn við dánarbeð hennar og styðst við bókina er bænarávarp hans alveg nákvæmlega samkvæmt kirkjulegum rétttrúnaði. En þegar hann gengur nær líkinu og fer með bæn frá eigin brjósti er annað uppi á teningnum. Þá vonar hann að hann og aðrir viðstaddir fái að njóta trúar og þjáninga Agnesar og öðlist náð fyrir augliti Guðs. Bæn hans á sér hliðstæður og beinar vísarnir í aðrar kirkjudeildir og trúarbrögð eins og rómversk-kaþólska trú og búddhisma.

Bæn prestsins er þannig þegar hann talar frá hjartanu.: „Ef það er svo að þú hafir safnað þjáningum okkar í veikan kropp þinn og ef þú hefur tekið þær með þér í dauðann og ef þú hittir Guð fyrir augliti til auglitis hinum megin og hann lætur ásjónu sína skína yfir þig og ef þú þá getur talað tungu sem þessi Guð skilur, já ef þessu er þannig varið, biddu þá fyrir okkur sem erum hér. Agnes mín, hlustaðu á mig. Biddu fyrir okkur sem enn erum hér í myrkrinu á skítugri jörðinni undir tómum og grimmum himni. Legðu byrði þjáninga þinna við fótskör guðsins og biddu hann um náð okkur til handa. Biddu hann að frelsa okkur undan hræðslunni, nagandi efanum og leiðindunum og biddu hann að gefa okkur tilgang með lífinu. Ó Agnes mín, þú sem hefur þjáðst svo óumræðilega mikið og svo lengi, þú hlýtur að vera þess verðug að tala fyrir munn okkar.“ Undir svona bæn hefði séra Tómas í Kvöldmáltíðargestunum tekið.

Nánari umfjöllun um Ingmar Bergman og trúarstef í kvikmyndum hans má finna í ritinu Kónguló eða kærleiksguð: Um áhrif kristindómsins á Ingmar Bergman og listsköpun hans eftir Pétur Pétursson.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: bænabók
Persónur úr trúarritum: prestur
Guðfræðistef: dauðinn, sorg, þjáning, samviska
Siðfræðistef: blekking, lygi, sjálfsfyrirlitning, sektarkennd, vonbrigði
Trúarbrögð: kristni, búddhismi
Trúarleg tákn: pieta
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: helgistund, bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: andlát, hræðsla, hryllingur (tremendum)