Kvikmyndir

Voices from Beyond

Leikstjórn: Lucio Fulci
Handrit: Lucio Fulci og Piero Regnoli
Leikarar: Duilio Del Prete, Karina Huff, Pascal Persiano, Lorenzo Flaherty, Bettina Giovannini, Frances Nacman, Paolo Paoloni, Sacha Maria Dawrin, Antonella Tinazzo, Damiano Azzos, Rosa Maria Grauso, Tom Felleghy og Lucio Fulci
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1991
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 1.77:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Látinn auðkýfingur er sannfærður um að hann hafi verið myrtur og reynir að ná sambandi við dóttur sína í gegnum drauma hennar til að fá hana til að finna morðingjann.

Almennt um myndina:
Hér er um að ræða ítalska gulmyndamorðgátu með hryllingsmyndayfirbragði en eins og alltaf má búast við af Lucio Fulci er ýmsum subbuatriðum skotið inn öðru hverju, einkum í tíðum martröðum sögupersónanna. Það koma meira að segja zombíur við sögu í einu draumaatriðinu, en mörg þeirra eru ósköp sýrð eins og spældu eggin, sem umbreytast í hlaupkennd augu, eru gott dæmi um.

Flestar myndir Fulcis síðasta áratuginn ollu vonbrigðum og þóttu sumar þeirra jafnvel alvondar. Hrollvekjan Voices from Beyond er langt frá því að vera besta mynd hans en hún er samt með því besta sem hann hafði gert í heilan áratug. Fulci átti aðeins eftir að gera eina mynd til viðbótar áður en hann dó árið 1994, en það var hrollvekjan Door to Silence (1991).

Leikararnir eru allir lítt þekktir og hættir sumum þeirra til að ofleika en yfirdrifin svipbrigði og uppglennt augu við minnsta tilefni eru alltof tíð. Persónusköpunin er bölsýn en flestir eru eigingjarnir, svikulir og gráðugir. Það er einna helst dóttirin og lamaður afi hennar sem reynast tiltölulega viðkunnanlegar persónur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kristnir menn trúa því að eilíf örlög allra manna séu í hendi Guðs. Kærleiki hans birtist í persónu Jesú Krists sem leiði manninn til samfélags við sig, en í því sé hjálpræðið einmitt fólgið.

Kristnir menn eru hins vegar ekki alveg á einu máli um hvert hlutskipti dauðra er nákvæmlega fram að upprisunni. Ýmsir ritningartextar gefa til kynna að hinir dauðu viti ekkert (Pd 9:5, 10) og sagt er að hinn látni sofi (Mt 9:24, Jh 11:11) en það hafa trúarhópar á borð við Sjöunda dags aðventista túlkað svo að hinir dauðu viti ekkert af sér fyrr en við upprisuna. Undir þetta hafa einnig margir guðfræðingar tekið, m.a. ýmsir lútherskir. Aðrir ritningartextar hafa hins vegar verið nefndir því til staðfestingar að hinir dauðu geti gert sér grein fyrir aðstæðum sínum eins og ríki maðurinn sem glataðist í dæmisögu Jesú Krists. (Lk 16:19-31.) Auk þess hafi Jesús sagt við annan ræningjann, sem krossfestur var með honum, að þeir yrðu báðir í paradís á þeim sama degi. (Lk 23:43.) Margir guðfræðingar, þar á meðal lútherskir, líta því svo á að hinir dauðu geti vel gert sér grein fyrir ástandi sínu. Enn aðrir telja það hins vegar litlu máli skipta hvernig beri að túlka þessa ritningartexta hvað þetta varðar því að þetta sé allt saman hvort sem er í hendi Guðs.

Það er þó sammerkt með þessum ritningartextum í Biblíunni að þeir gera ekki ráð fyrir samskiptum milli lifandi og látinna og bannað þau jafnvel. Ríka manninum er bannað að hafa samband við bræður sína sem enn eru á lífi (Lk 16:27-31) og varað er sérstaklega við því að nokkur „leiti frétta af framliðnum“ (V Mós. 18:10-11). Ástæðan er einkum sú eingyðistrú sem boðuð er í Biblíunni. Manninum ber að rækja samfélag sitt við Guð einan í stað framandi anda sem ekki er unnt að treysta, en samskipti við andaheiminn er einatt líkt við framhjáhald frá Guði (III Mós. 20:6).

Efnistök kvikmyndarinnar Voices from Beyond eru því á skjön við þá heimsmynd, sem dregin er upp í Biblíunni, en áhugavert er engu að síður að skoða með hvaða hætti afdrif látinna birtist þar.

Við kistulagninguna er Sálmur 23 fluttur í heild sem bæn en á meðan er aðdráttarlinsunni beint að syrgjendunum einum af öðrum með hefðbundnum hætti ítalskra kvikmyndatökumanna og taktföst tónlist flutt með til að vekja spennu og dulúð. Sálmurinn virkar í raun eins og andstæða alls þess sem á sér stað í myndinni. Sál hins látna er hjálparvana og sárkvalin yfir óréttlætinu og vill allt til þess vinna að hinn seki fái makleg málagjöld en í sálminum kemur fram að hinn trúaði óttist ekkert illt þótt hann fari um dauðans skuggadal (eins og það er orðað í enskunni) því að Drottinn sé hjá honum. Og í stað grænna grunda þar sem hinn trúaði fær að hvílast rotnar lík hans aðeins í gröfinni en rotnunarferlið er sýnt með reglulegu millibili í gegnum alla myndina. Versið „Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum“ fær aukið vægi þar sem syrgjendurnir eru sýndir þungir á brún eins og þeir hafi flestir verið í nöp við hinn látna og gætu vel hafa átt sök á dauða hans. Gæfa og náð hafa ekki fylgt hinum guðlausa auðkýfingi, sem var að lokum myrtur og er bundinn við gröf sína sem glötuð sál án Guðs, en hann kvartar sérstaklega undan öllum orðaflauminum strax að sálminum loknum og segist ekki skilja hvers vegna enginn skuli vilja leiða sannleikann í ljós.

Þó svo að Sálmur 23 sé notaður í þessari mynd með nokkuð hefðbundnum hætti, þ.e. bæn við kistulagningu, þá er samt unnið með hann með nokkuð athyglisverðum hætti, en hann er í raun andstæða þess sem á sér raunverulega stað. Þetta er ekki eina skiptið, sem Fulci notar sálminn við slíkt tækifæri, en í zombíumannætuhrollvekjunni City of the Living Dead (1980) kemur hann einnig við sögu við kistulagningu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23
Persónur úr trúarritum: zombía, draugur
Guðfræðistef: handanveruleikinn, glötun, réttlæti, dauðinn, samviskan
Siðfræðistef: morð, eigingirni, ágirnd, krufning, hefnd
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, spíritismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kapella
Trúarleg tákn: talnaband, altari, altarisbikar, sjö arma ljósastika, altariskross, maríumynd, veggkross, reykelsi, kross á legsteini
Trúarleg embætti: prestur, kórdrengur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, biblíulestur, kistulagning, líkræða, hneigja höfuð, signun
Trúarleg reynsla: draumur