Kvikmyndir

Voskhozhdeniye

Leikstjórn: Larisa Shepitko
Handrit: Yuri Klepikov og Larisa Shepitko, byggt á skáldsögunni Sotnikov eftir Vasili Bykov
Leikarar: Boris Plotnikov, Vladimir Gostyukhin, Viktoriya Goldental, Lyudmila Polyakova, Anatoli Solonitsyn, Mariya Vinogradova og Sergei Yakovlev
Upprunaland: Rússland (Sovétríkin)
Ár: 1976
Lengd: 105mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0075404
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Árið 1943 eru sovésku skæruliðarnir Sotnikov og Rybak sendir til að ná í vistir fyrir sveltandi félaga sína í Hvíta-Rússlandi. Þýzki herinn nær hins vegar á undan þeim á áfangastaðinn og neyðast þeir því til að halda langt inn á óvinasvæðið í leit að vistum, ferð sem leiðir einnig inn á við og opinberar hvern mann þeir hafa að geyma.

Almennt um myndina:
Sovéska stríðsmyndin Voskhozhdeniye (The Ascent á ensku og Uppgangan á íslensku) var síðasta mynd leikstjórans Larisa Shepitko, en hún gerði alls átta kvikmyndir á ferli sínum. Voskhozhdeniye er þó eina kvikmyndin, sem hún fékk einhverja viðurkenningu fyrir á Vesturlöndum, en hún vann fern verðlaun fyrir hana á Berlínarhátíðinni. Skömmu eftir að Larisa Shepitko leikstýrði þessari stórkostlegu kvikmynd, lést hún í bílslysi fertug að aldri, en þess má geta að hún var gift leikstjóranum Elem Klimov, sem sennilega er hvað þekktastur fyrir stríðsmyndina Idi i smotri (Komið og sjáið) frá árinu 1985.

Það var mikið lán að félagsmönnum Deus ex cinema skyldi hafa verið boðið að sjá þessa áhrifamiklu kvikmynd í sýningarsalnum hjá MÍR, enda hefur satt best að segja vart liðið sá dagur að ég hafi ekki hugsað til hennar síðan (og þó eru liðnar um tvær vikur). Þetta er ein af þeim kvikmyndum, sem manni langar að sjá strax aftur og batnar jafnvel í minningunni. (Þess má geta að hægt er að nálgast þessa kvikmynd a.m.k. í Aðalvídeóleigunni á Klapparstíg.)

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í kvikmyndinni er að finna fjölmargar vísanir til píslarsögu guðspjallanna. Sem dæmi má nefna gönguna á aftökustaðinn (nafn myndarinnar vísar einmitt til hennar, þ.e. uppgangan), skiltið sem sakargift hinna dauðadæmdu eru skráð á, tómu snöruna í lokin og tómu gröfina. Þá minnir nóttin fyrir aftökuna á þjáningar Jesú Krists í Getsemanegarðinum, en Rybak biður vini sína að vaka mér sér og gæta þess að hann sofni ekki og fer einn félaga hans stöðugt með bænir við það tilefni. Og fleiri vísanir eru til Krists. Snemma í myndinni segir Rybak að tími hans sé ekki enn kominn, þ.e. að hann eigi ekki að deyja núna. Hann ákveður þó að taka á sig sök (syndir) félaga sinna og deyja til að bjarga lífi þeirra.

Þótt Rybak takist ekki beinlínis að bjarga lífi vina sinna hefur dauði hans engu að síður hjálpræðislegt gildi því að hugrekki hans og staðfesta veitir von og stappar stálinu í aðra samlanda hans. Þá er einnig áhrifamikil sena undir lokin þar sem Rybak og ungur drengur horfast í augu áður en sá fyrrnefndi er tekinn af lífi. Áhorfandinn fær það sterklega á tilfinninguna að þessi stund eigi eftir að hafa djúpstæð áhrif á drenginn, sem muni e.t.v. sjá til þess að minningin lifi.

En þótt myndin hafi fjölmargar vísanir til Jesú Krists þá fjallar hún fyrst og fremst um Júdas. Í upphafi myndarinnar á áhorfandinn augljóslega að bera meiri virðingu fyrir Sotnikov, enda er hann bæði sterkur og hugrakkur, en Rybak er lasinn og máttlítill. Í lok myndarinnar áttar áhorfandinn sig hins vegar á því að sú persóna, sem hann heillaðist mest af, svipar hvað mest til Júdasar meðan hinn sjúki Rybak minnir á Krist. Sotnikov svíkur málstaðinn og gengur Þjóðverjum á hönd til að bjarga lífi sínu og tryggja frelsi sitt. Hann sér engan tilgang í því að deyja fyrir hugsjónirnar og telur sig getað þjónað málstaðnum enn betur með því að þykjast svíkja hann og stinga síðan af við fyrsta tækifæri. Hann gengur meira að segja svo langt að aðstoða við aftökuna á vinum sínum til að bjarga eigin skinni.

En Sotnikov kemst brátt að því að líf án hugsjóna er einskis virði. Vanlíðan hans er svo mikil að hann reynir að hengja sig (eins og Júdas). Stuttu síðar gefst honum fullkomið tækifæri til að flýja en þá áttar hann sig loks á því að frelsið er ekki fólgið í því að komast þangað sem maður vill eða að gera það sem manni langar til, heldur felst það í hugsjónum og heilindum. Sotnikov sér að það skiptir engu máli hversu langt hann komist frá Þjóðverjunum eða hversu frjáls ferða sinna hann verði, því að samviska hans muni alltaf plaga hann og svik hans verða sálarlegt fangelsi hans. Það er nefnilega sannleikurinn einn sem gerir manninn frjálsan. Lygi og svik megna það hins vegar aldrei.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 26:36-27:56; Mk 14:32-15:32; Lk 22:39-23:49; Jh 18-19, P 1:18
Persónur úr trúarritum: Júdas, Jesús Kristur
Guðfræðistef: frelsi, manneðlið, kristsgervingur, samviska
Siðfræðistef: heiðarleiki, lygi, morð, pyntingar, stríð, svik, trúfesta
Trúarbrögð: kommúnismi, kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signing, biblíulestur