Kvikmyndir

Voyage of the Damned

Leikstjórn: Stuart Rosenberg
Handrit: Steve Shagan og David Butler, byggt á bók eftir Gordon Thomas og Max Morgan Witts
Leikarar: Max von Sydow, Faye Dunaway, Orson Welles, Katharine Moss, James Mason, Malcolm McDowell, Oscar Werner, Helmut Griem, Lee Grant, Sam Wanamaker, Lynne Frederick, Wendy Hiller, Julie Harris, Maria Schell, Jonathan Pryce, Anthony Higgins, Michael Constantine, José Ferrer, Ben Gazzara, Fernando Rey, Günter Meisner, Denholm Elliott, Philip Stone, Laura Gemser, David de Keyser, Genevieve West, Don Henderson og Luther Adler
Upprunaland: Bretland og Spánn
Ár: 1976
Lengd: 152mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Myndin Voyage of the Damned er sannsöguleg, greinir frá siglingu þýska farþegaskipsins St. Louis frá Hamborg til Havana í maí 1939. Innanborðs voru 937 Gyðingar sem ólu þá von í brjósti að þeir myndu öðlast frelsi í nýju heimalandi, þ.e. Kúbu. En skipið fékk ekki einu sinni að leggjast að bryggju í Havana. Það sem Gyðingarnir vissu hins vegar ekki að um var að ræða áætlun sem JosefGöbbels, áróðursmálaráðherra nasista, hafði skipulagt. Hann sá það fyrir að Gyðingunum yrði ekki veitt hæli á Kúbu og vildi með því sýna heiminum að Gyðingar væru hvergi velkomnir og þannig réttlæta afstöðu nasista til Gyðinga.

Almennt um myndina:
Í helfararrannsóknum er sá atburður sem þessi mynd greinir frá óneitanlega mjög forvitnilegur. Hin sannsögulega atburðarás myndarinnar sýnir að þjóðir sem fengið höfðu vitneskju um framferði nasista gagnvart Gyðingum gerðu lítið til að skerast í leikinn. Bandaríkjamenn neituðu meira að segja að taka við skipinu og lengst af benti allt til að Gyðingarnir um borð í St. Lousi myndu hvergi fá hæli nema í Hamborg á nýjan leik og þar beið þeirra ekkert nema dauðinn. Þegar þar var komið sögu gátu fulltrúar nasista í myndinni sagt sigri hrósandi: „Við höfum þvingað heiminn til að sjá að þetta fólk er vandamál.“

Ringulreið og örvænting greip um sig meðal farþeganna þegar ljóst var að skipinu hafði verið snúið aftur áleiðis til Evrópu. Raunar fór svo að á síðustu stundu samþykktu fjórar þjóðir að taka við fólkinu, þ.e. Belgar, Hollendingar, Frakkar og Bretar. Kaldhæðni örlaganna var sú að fljótlega á eftir voru þrjú þessara landa hernumin af nasistum og um sex hundruð Gyðinganna af St. Louis létu lífið í útrýmingarbúðum nasista.

Þrátt fyrir mikinn fjölda heimsfrægra leikara, svo sem Max von Sydow, Orson Welles, Faye Dunaway, Malcolm MacDowell, þá hefur sú mynd sem hér um ræðir yfirleitt fengið heldur slaka dóma. Atburðarás myndarinnar er mjög hægfara og vel hefði mátt vinna betur úr þessum efnivið, því að vissulega er þessi sögulegi atburður allrar athygli verður. Myndin stendur þó fyrir sínu en á stundum finnst manni sem fjöldi hinna þekktu leikara nánast dragi athyglina frá efnivið myndarinnar. Þá sakna ég þess að meðal aukaefnis á disknum skuli ekki vera veittar ítarlegar upplýsingar um hinn sögulega raunveruleika sem myndin byggir á.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Líta má á ferð Gyðinganna 937 sem ákveðna hliðstæðu við exodus þó að það hugtak sé hvergi notað í myndinni og á sama hátt mætti tala um Kúbu sem land fyrirheitisins. Nöfn tveggja Gyðinga, sem sloppið hafa úr útrýmingarbúðum og koma talsvert við sögu í myndinni, skapa hugrenningatengsl við exodus-sterfið, en nöfn þeirra voru Jósef og Aron. Flóttafólkið átti dauðann vísan í Þýskalandi, en það hafði vegabréf í höndunum sem átti að tryggja því hæli á Kúbu og það vonaði og treysti að sú yrði raunin. Á leiðinni skiptist fólkið á orðum um hvernig því muni líka vistin í hinu framandi landi og bjartsýni er lengst af ríkjandi. Ýmislegt gerist hins vegar um borð sem verður til að draga úr því kjarkinn. Von og örvænting takast á. Nasistar um borð gerðu fólkinu lífið leitt á margvíslegan hátt, sýndu áróðursmynd með Hitler þegar það var komið saman til að horfa á afþreyingarmynd í kvikmyndasal skipsins og fleira í þeim dúr. Slík örvænting grípur um sig að sumir verða að sæta gæsla til að koma í veg fyrir að þeir fremji sjálfsmorð. Og vissulega eiga sjálfsmorð sér stað á skipinu, einnig morð og tilraun til uppreisnar, þ.e. að taka yfir stjórn skipsins.

Á skipinu takast á nasistar og þeir sem eru vinveittir Gyðingunum eða vilja a.m.k. koma fram við þá eins og hverja aðra farþega. Einn hinna vinveittu er myrtur en í vinveitta hópnum er þýski skipstjórinn Schröder (Max von Sydow). Þegar nokkrir Gyðingar reyna að gera uppreisn og hafa meðal annars náð skipstjóranum á vald sitt kemur læknir úr hópi Gyðinga aðvífandi og spyr hvað þeir séu eiginlega að gera. Bent er á að Schröder skipstjóra megi treysta og því sambandi er vísað til kristinnar trúar hans. Það gefa uppreisnarmenn lítið fyrir og segja: „Það voru líka kristnir menn sem byggðu útrýmingarbúðirnar.“ En Schröder sýnir að hann er sannkristinn heiðursmaður sem ber virðingu fyrir lífi manna, jafnt Gyðinga sem annarra, og að honum er full alvara með að reyna að bjarga farþegum sínum.

Þegar skipið var úti fyrir strönd Englands við Sussex hafði Schröder skipstjóri tekið þá ákvörðun að sigla skipinu þar í strand og þvinga þannig Englendinga til að taka við Gyðingunum. Rétt áður en til þess kom bast skeyti um tekist hefði að fá hæli fyrir fólkið í áðurnefndum fjórum löndum. Vonin er gegnumgangandi stef í myndinni. Fólkið vonar að þjáningarnar og ofsóknirnar séu senn að baki. En þegar skipið nálgast Kúbu berast fréttir af því að „bylgja af gyðingahatri“ fari nú yfir Kúbu. Flóttamennirnir eru hvattir til að gefa ekki upp vonina og sá er það gerir segir: „Við (Gyðingar) höfum lifað af gegnum aldirnar vegna þess að við gáfum aldrei upp vonina.“ Læknirinn Werner, ein af lykilpersónum myndarinnar, segir hughreystandi við konu sína: „Þetta er aðeins tímabundið brjálæði.“ Í eftirmála fá áhorfendur að vita að þau hjónin hafi raunar hafnað í útrýmingarbúðum eins og meirihluti farþeganna en komist af.

Eins og jafnan er í helfararmynd þá eru hin siðferðileg stef mjög fyrirferðarmikil. Þannig tala sumir ráðamenn á Kúpu um skipið sem gullnámu, mikla peninga megi kúga út úr Gyðingum. Lúxus-vændiskona (Katharine Ross) kemur um borð í skipið til að hitta foreldra sína og færa þeim peningafúlgu. Foreldrar hennar undrast yfir hvernig hún hafi eingast svo mikla peninga og ekki síður hvers vegna hún, sem er Gyðingur, beri kross um hálsinn. Hún segir að það geri hún til að verja sig og að peningana hafi hún þénað til að bjarga þeim. Greinilegt er að foreldrar hennar átta sig á að hún er vændiskona og þeim sárnar það mjög.

Lítið fer fyrir tilvitnunum í Ritninguna. Þó er einu sinni vitnað óbeint í hana þegar ljóst er að skipið fær að leggjast að bryggju í Kúbu. Þá er sagt í háðstón: „Fólkið er Gyðingar, kannski getur það gengið á vatni!“ (sbr. Mk 6:48-49). Margir Gyðinganna um borð bera kollhúfur (kippa) og auðkenna sig þannig sem Gyðinga. Fána með Davíðsstjörnu er komið fyrir í samkomusal skipsins þar sem mynd af Hitler hafði áður verið. Þannig er sköpuð aðstaða til að halda guðsþjónustu að hætti Gyðinga. Gyðingleg útför er gerð frá skipinu með tilheyrandi hebresku ritúali. Kona sem þar missti aldraðan mann sinn á skipinu „rífur klæði sín“ sem í gyðingdómi er trúarlegt atferli í sorg. Hún gefur lítið fyrir dánarúrskurð læknanna á skipinu og segir að maður sinn hafi dáið vegna „brostins hjarta“. Með því er hún augljóslega að segja að hann hafi gefið upp alla von.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 14:25-26; Mk 6:48-49
Hliðstæður við texta trúarrits: 2. Mósebók
Sögulegar persónur: Göbbels, Hitler, Canaris
Guðfræðistef: blessun, frelsi, sjalom, von
Siðfræðistef: áróður, blekking, einelti, forréttindi, framhjáhald, Gyðingahatur, hótun, hroki, kynþáttahatur, niðurlæging, ofbeldi, morð, mútur, ofbeldi, sjálfsvíg, spilling, stríð, svik, uppreisn, vændi
Trúarbrögð: fasismi, gyðingdómur, kristindómur, nasismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, sýnagóga, vot gröf
Trúarleg tákn: Davíðsstjarna, hakakross, kippa, kross í hálsmeni
Trúarleg embætti: prestur, rabbí
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, eiður, að rífa klæði sín, útför
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: guðsþjónusta
Trúarleg reynsla: bænasvar, helförin, marttröð, þunglyndi