Kvikmyndir

Vozvrashcheniye

Leikstjórn: Andrei Zvyagintsev
Handrit: Vladimir Moiseyenko og Aleksandr Novototsky
Leikarar: Vladimir Garin, Ivan Dobronravov, Konstantin Lavronenko, Natalya Vdovina, Yelizaveta Aleksandrova, Lazar Dubovik, Lyubov Kazakova, Galina Petrova, Aleksei Suknovalov og Andrei Sumin
Upprunaland: Rússland
Ár: 2003
Lengd: 106mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Pabbi tveggja drengja er kominn heim eftir 12 ára útivist. Þeir búa með móður sinni og ömmu en heimkoma föðurins reynist engum fagnaðarefni. Hann er fjarlægur – eins og af öðrum heimi – og gefur engum tækifæri til að nálgast sinn innri mann ef hann hefur þá nokkurn. En hann gengur strax inn í hlutverkið sem drottnari heimilisins og það slær þögn á alla, konurnar þjást, ekki síst sú gamla sem segir ekki eitt einasta orð. Hann ætlast greinilega til þess að allir hlýði honum umyrðalaust. Drengirnir eru fyrst spenntir og reyna að nálagst föður sinn á ýmsan hátt og gera honum allt til hæfis en viðleitni þeirra rennur alltaf út í sandinn. Það er sérstaklega yngri sonurinn Ívan sem verður sár, enda viðkvæmir og lítill í sér og með mikið skap og erfitt. Faðirinn er harður og önugur og slær til drengjanna, sérstaklega eldri sonarins sem fær skrámur og blóðnasir.

Myndin hefst á því að hópur drengja er að leika sér við vatn, stinga sér af háum stökkpalli og kafa. Þeir fara allir efst upp og stinga sér þaðan nema Ívan sem er lofthræddur og þorir ekki. Félagar hans og eldri bróðir hans niðurlægja hann og kalla hann hugleysingja. Þeir fara heim og það er komið kvöld og Ívan er einn efst uppi á pallinum, kaldur og skjálfandi og þorir ekki að klifra niður, en þá birtist móðir hans og huggar hann og styður. Hún er kjölfestan í lífi drengjanna. Drengirnir eiga að fá að fara í nokkurra daga ferðalag með föður sínum. Þeir leggja af stað með veiðistengurnar sínar glaðir í bragði en sífeldir árekstrar setja skugga á þetta ferðalag. Þeir vita ekki hvert ferðinni er heitið og ekki heldur hver tilgangur þess er. Faðirinn segir sem minnst um það og þeir hafa heldur ekki fengið að vita hvar hann ól manninn þau 12 ár sem hann var í burtu. Var hann í fangelsi? Var hann í hernum – orustuflugmaður? Var hann gæpamaður eða stríðshetja? Myndin svarar þessu ekki heldur.

Áfangastaðurinn er óbyggð eyja með stórum útsýnisturni. Faðirinn grefur eftir torkenninlegum svörtum þungum kassa sem hann ber niður í bátinn og ætlar greinilega að fara með heim. Hann er óvenju hranalegur þarna við ströndina og slær eldri drenginn utanundir svo miklu höggi að hann fellur á jörðina. Sá yngri var búinn að útvega sér hníf og hótar grátandi að drepa föður sinn og síðan sjálfan sig. Hann kastar frá sér hnífinum og tekur á rás á undan föður sínum sem eltir hann því að hann sættir sig ekki við þessa framkomu. Nú bregður svo við að Ívan litli klifrar alla leið upp í útsýnisturninn, en það hafði hann ekki þorað að gera fyrr um daginn þegar þeir faðir hans og bróðir fóru þangað upp til að skoða sig betur um. Faðirinn klifrar upp á eftir drengnum, en ekki vill betur til en að hann missir tökin og fellur og er látinn þegar drengirnir koma að honum. Sorg drengjanna er átakanleg ekki síst í ljósi þess hve samband þeirra við föðurinn var ömurlegt. Með mikilli fyrirhöfn draga þeir líkið að ströndinni og koma því fyrir í bátnum meðan þeir undirbúa heimferðina. En þá kemur flóðið og bátinn ber stjórnlausan út á vatnið þar sem hann sekkur og drengirnir sjá lík föður síns hverfa smá saman í djúpið. Vonbrigði þeirra eru marg ítrekuð: Fyrst að hann skuli hafa farið, næst þegar í ljós kemur að hann vill ekki eða getur ekki tengst þeim á ný, svo þegar hann deyr og loks þegar þeir missa lík hans út úr höndunum. Ástandið er sem sagt mun verra en hefði hann aldrei komið.

En kom hann nokkuð aftur? Í lok myndarinnar sjáum við ljósmyndirnar sem drengirnir tóku í þessari misheppnuðu ferð með föður sínum og hann er hvergi á þeim myndum. Eina sönnunin sem þeir hafa um það að hann hafi verið til eru 12 ára gamlar myndir þar sem hann er ásamt sonum sínum og sá yngri er þá aðeins kornabarn og sá eldri um þriggja eða fjögra ára.

Almennt um myndina:
Myndin Endurkoman (The Return á ensku og Vozvrashcheniye á rússnesku), sem gerð var árið 2003, hefur þegar hlotið alþjóðleg verðlaun og það maklega. Hún fékk t.d. gulljónið í Feneyjum 2003 og Golden Glob verðlaunin sem besta erlenda myndin sama ár.

Myndin er á vissanhátt falleg og hún er ljóðræn og látlaus og það er einhver tregi og jafnvel drungi yfir henni sem magnast þegar eðlilegur gáski sona þess heimkona er sífelt þaggaður niður og vonir þeirra bresta. Hún grípur áhorfandan og hreyfir við djúpstæðum kenndum eins og söknuði og vonbrigðum.

Leikstjórinn Andrey Zvyagintsev er til þess að gera kornungur en hann hefur augljóslega lært mikið af meisturunum. Treginn og sorgin er í ætt við myndir Andreis Tarkovskys en ljóðrænar tökurnar, litirnir og notkun tónlistarinnar minna um margt á Krzysztof Kieslowski. Af þessari mynd að dæma er rússnesk kvikmyndagerð að sigla inn í nýtt glæsiskeið.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það kemur ekki í ljós hvort móðir drengjanna hafi beðið í eftirvæntingu eftir endurkomunni en hún er alla vega ekki glöð þegar hann er kominn. Drungi sorgar hvílir stöðugt yfir henni. Hún myndar engin tengsl við þennan mann. Amman er stjörf og fjarræn og sá nýkomni lætur eins og hún sé ekki til. Maður fær það á tilfinninguna að ef þessi maður hefur einhvern tíma verið sonur og eiginmaður þá hafi hann verið óþokki.

Þessi faðir er þó ekki bara óþarfur, hann er ógn sem passar engan veginn inn í heimilishaldið – samfélagið. E.t.v. þarf þetta samfélag sem þarna er yfirleitt ekki lengur á feðrum að halda. Er boðskapur myndarinnar sá að feður séu orðnir steingerfingar úreltra samfélagshátta? Hver er hann þessi sem kom aftur? Ekki getur hann verið Hjálparinn endurkominn, eða hvað? Á maður að skilja það svo að frelsarar séu almennt hættulegir eða að minnsta kosti óæskilegir? Nafn myndarinnar vísar að minnsta kosti óbeint í endurkomu Krists sem kristnir menn vænta í tengslum við hina hinstu tíma. Fyrst þegar drengirnir líta hann augum eftir endurkomuna liggur hann sofandi í rúmi nákvæmlega í sömu stellingu og Jesús á myndinni Kristur látinn eftir Andrea Mantegna frá því um 1500 (ábending Eysteins Björnssonar).

Það er lítið af eiginleikum Krists í þessum föður sem snéri aftur heim. Þumbaraskapur þessa steingerfings líkist meira Stalín sem vildi svo sannarlega vera faðir yfir alla hafinn og frelsari öreiganna og rússnesku þjóðarinnar. Kannski er þessi heimkoma, sem viss hluti þjóðarinnar hefur enn væntingar til, tákn um möguleika sem myndi snúast upp í martröð ef af henni yrði, þ.e. endurkomu sovétkerfisins. Faðirinn er þá holdgerfingur þess kommúníska kerfis sem hrundi árið 1991, nákvæmlega 12 árum áður en myndin var gerð. Móðirin og amman tákna þannig rússnesku þjóðina sem kalt og vélrænt kerfið nýddist á í rúmlega tvo mannsaldra.

Svarti kassinn sem þessi heimkomni faðir lagði svo mikið upp úr að finna fórst með honum og enginn fær að vita hvað í honum er. Kannski er hann tákn um þá fortíð og framtíð sem sovétkerfið með öllu mögulegu og ómögulegu ofbeldi, svikum og prettum, ætlaði að skilgreina og ráða yfir í eitt skipti fyrir öll. Mættum við þá þakka fyrir að þessi pakki fór veg allrar veraldar – því farið hefur fé betra.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kristur látinn eftir Andrea Mantegna frá því um 1500
Persónur úr trúarritum: Kristur
Guðfræðistef: kærleikur, kærleiksleysi, dauðinn, kristsvísun
Siðfræðistef: heimilisofbeldi, einelti, þjófnaður, sjálfsvígshótun, vonbrigði, ótti
Trúarbrögð: kommúnismi
Trúarleg tákn: hafið, báturinn, turninn, endurkoman
Trúarleg reynsla: sorg, eftirsjá