Kvikmyndir

Who Finds a Friend Finds a Treasure

Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Mario Amendola, Sergio Corbucci og Gene Luotto
Leikarar: Terence Hill, Bud Spencer, Sal Borgese, John Fujioka, Louise Bennett, Olaya Aguirre, Tom Tully, Mirna Seya, Kainowa Lauritzen, Terry Moni Mapuana og Herb Goldstein
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1981
Lengd: 102mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Alan kemst yfir kort sem vísar á falinn fjársjóð frá síðari heimsstyrjöldinni á eyðieyju á Kyrrahafinu. Þar sem hann er á flótta undan bófaflokki, sem hann hafði hlunnfarið, neyðist hann til að gerast laumufarþegi um borð hjá skipstjóranum Charlie O’Brien, sem er að leggja í hnattsiglingu á bátnum sínum á vegum marmelaðisfyrirtækis.

Ekki líður á löngu þar til Charlie finnur laumufarþegann, enda á maturinn það til að hverfa um leið og hann hefur verið matreiddur. Alan tekst samt að rugla áttavitann með þeim afleiðingum að Charlie siglir óafvitandi beina leið til eyðieyjunnar. Þegar hann loks áttar sig á sviksemi Alans, lenda þeir í hörkuáflogum og steypast fyrir vikið í sjóinn. En þar sem báturinn var á hraðri siglingu, neyðast þeir til að synda í staðinn til eyjarinnar sem nýkomin er í sjónmál.

Eyjan reynist samt ekki í eyði þegar þangað er náð því að þar er ekki aðeins að finna þorp friðsamra frumbyggja heldur herskáan japanskan hermann sem heldur að síðari heimsstyrjöldin standi enn yfir þótt 36 ár séu liðin frá lokum hennar. Ofan á allt saman mæta svo á svæðið sjóræningjahópur á þrælaveiðum og bófarnir sem Alan er á flótta undan, enda hafa þeir líka áttað sig á hvað þar sé að finna.

Almennt um myndina:
Enda þótt þessi áflogamynd sé örlítið skárri en flestar þeirra sem Trinity bræðurnir Terence Hill og Bud Spencer léku saman í, þýðir það ekki að hún sé góð. Reyndar á myndin nokkra góða spretti en ofleikur sumra frumbyggjanna og alltof mörg langdregin og heimskuleg slagsmálaatriði skemma mikið fyrir henni.

Leikstjórinn Sergio Corbucci gerði yfir 60 kvikmyndir í ótal kvikmyndaflokkum á 40 ára löngum starfsferli. Hann er samt þekktastur fyrir spaghettí-vestrana sína, sem sumir hverjir teljast til þeirra bestu, ekki síst kvikmyndirnar Django (1966) og The Great Silence (1968).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þegar skipstjórinn Charlie O’Brien áttar sig á að hann hafi siglt rækilega af leið, segir hann þungur á brún við laumufarþegann, að hann skuli sko fara með bænirnar sínar ef hann hafi átt einhverja sök á þessu. Síðan þegar Charlie sér hvað laumufarþeginn hafði gert við áttavitann, segir hann hvass: „Hversu margar bænir kannt þú?“ Laumufarþeginn telur þá upp faðir vorið, maríubænina og iðrunarbæn en verður um leið að verja sig fyrir taumlausri heift skipstjórans.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13
Guðfræðistef: iðrun, trú
Siðfræðistef: ofbeldi, þrælahald, stríð, löghlýðni, óheiðarleiki, ágirnd
Trúarleg embætti: galdralæknir, spámaður
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, maríubæn, faðirvorið, iðrunarbæn