Kvikmyndir

Windtalkers

Leikstjórn: John Woo
Handrit: John Rice og Joe Batteer
Leikarar: Nicolas Cage, Christian Slater, Adam Beach, Peter Stormare, Noah Emmerich, Martin Henderson, Mark Ruffalo, Brian Van Holt, Roger Willie og Frances O’Connor
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 129mín.
Hlutföll: 2.40:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þessi mynd fjallar um hvernig Bandaríkjamenn notuðu tungumál Navajo indiána til þess að búa til dulmál til þess að koma mikilvægum skeytasendingum sín á milli. Til þess þurftu þeir því að fá Navajo indiána í herinn. Fram til þessa höfðu Japanir alltaf getað brotið dulmál Bandaríkjamanna en nú bundu þeir miklar vonir um að slík gegnumbrot væru á enda.

Joe Enders (Nicholas Cage) er hermaður sem missir alla félagana úr sveit sinni og særist sjálfur í átökum þar sem hann er hæstráðandi. Félagar hans grátbáðu hann um að mega hörfa, en hann stóð fast á því að hlíðnast skipunum yfirboðara sinna. Honum er tjaslað saman á Hawaii og von bráðar er hann kominn á ný út á vígvöllinn. Nú er hlutverk hans að hafa gætur á Navajo indíánanum Ben Yahzee (Adam Beach), sem er hersveitinni afar mikilvægur því að þarna fer fjarskiptamaður á ferð. Annar slíkur indíáni er í hersveitinni, Charlie Whitahorse (Roger Willie), og er hans gætt af Ox Anderson (Christian Slater). Hlutverk þeirra Joe og Ox er þó ekki að gæta indíánanna sjálfra, heldur dulmálsins sem þeir kunna. Það er að segja, dulmálið og þar með indíánarnir tveir mega ekki undir nokkrum kringumstæðum lenda í höndum óvinanna lifandi. Aðalsögusvið kvikmyndarinnar er Japanska eyjan Saipan sem Bandaríkjamenn freista þess að ná yfirráðum yfir. Þessi eyja er hernaðarlega mikilvæg í orrustunni um Kyrrahaf og yfirráð á henni því gríðarlega þýðingarmikil.

Almennt um myndina:
Þetta er ágætis mynd sem er vel horfandi á. Hún er nokkuð fyrir augað, flott kvikmyndataka og ágætar tæknibrellur úr smiðju Johns Woo. Einnig er persónusköpunin fullkomlega í anda hans, en það sem helst einkennir persónurnar er töffaraskapurinn. Þetta eru nánast undantekningalaust hinir mestu harðjaxlar sem kalla ekki allt ömmu sína, frekar ,,kaldar” persónur. Myndin er einnig nokkuð í anda stríðsmyndanna Saving Privat Ryan og We Were Soldiers, með flottar stríðs- og bardagasenur í bland við tilfinningaflækjur hermannanna. Þó hefði ég viljað sjá meiri og nánari umfjöllun um hvernig tungumál Navajo indiána var notað í baráttu Bandaríkjamanna við að ná yfirráðum á Kyrrahafi, en orrustan um Saipan var eitt mikilvægasta skrefið í þeim sigri, hvernig þessir indiánar voru þjálfaðir og hversu auðvelt eða erfitt reyndist að fá þá til að berjast fyrir land og þjóð, sem fyrir fáeinum áratugum ofsótti þá og slátraði. Sjálfum finnst mér þetta raunverulega viðfangsefni kvikmyndarinnar ,,týnast” í öllum hasarnum, sprengingunum, öskrum hermannanna og fljúgandi byssukúlum sem þó er allt vissulega oft á tíðum ágætlega útfært.

Eins og kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert bendir á á vefsíðu Chicago Sun-Times þá er þessi mynd nokkuð fyrirsjáanleg og eru bæði senurnar og persónurnar ósköp dæmigerðar í myndinni. Þar sem við erum hér með indíána, er öruggt að hér er einnig til staðar hvítur kynþáttahatari, sem svo er bjargað frá bráðum lífsháska af einum indíánanum; hjúkka sem fellur fyrir hermanni; hermaður sem framfylgir öllum skipunum samkvæmt bókinni; hermaður sem verður ofsagóður vinur indíánanna og þess háttar. Þannig má vissulega segja að þessi mynd sé nokkuð fyrirsjáanleg. (Sjá: http://www.suntimes.com/ebert/ebert_reviews/2002/06/061404.html.)

Ekki má heldur gleyma gríðarlegum hetjuskap sem hvað eftir annað kemur fram í myndinni: Eins og það að brjótast í gegn um kúlnaregnið til þess að bjarga særðum félaga, klæðast einkennisbúningum óvinarins (sem telst reyndar stríðsglæpur og er sá sem slíkt gerir jafnan talinn dauðasekur fyrir herrétti) til þess að komast yfir talstöð, skríða nánast inn í skotbyrgi óvinanna til þess að sprengja það í loft upp, o.s.frv.

Eins og áður sagði þá er þarna hjúkka sem fellur fyrir Joe (Nicolas Cage) en greinilegt er að flest allt hefur verið klippt burt úr myndinni sem greinir frá því hvernig samband þeirra myndast, enda má sjá slíkar senur í aulýsingarsýnishornum myndarinnar fyrir frumsýningu hennar. Við fáum aðeins að sjá senu þar sem Joe býður hjúkkunni í glas eftir að hún hefur nánast neytt hann til þess. Svo er hún allt í einu farin að senda honum gommu af ástarbréfum út á vígvöllinn þar sem hún segir honum hve mikið hún saknar hans og hve hún þráir að hann komi á ný til hennar og haldi á henni hita seint á síðkvöldum. En Joe er sannur hermaður og hættir að nenna að lesa þessi bréf. Hvers vegna? Jú, hann er karlmaður og getur ekki hugsað um tvennt í einu; kvenfólk og eitthvað annað. En að öllu gamni slepptu, þá einbeitir Joe Enders sér svo mjög að stríðinu og hlutverki sínu að hann má ekki til þess vita að til sé líf fyrir utan þetta stríð, því að hann er ekki fær um að höndla sínar eigin tilfinningar og minningar úr fyrri bardögum.

Einnig bendir Roger Ebert á fjarstæðuna í því að tveir indíánar séu látnir vera í hersveit í fremstu víglínu þar sem nánast er barist með berum hnefunum, þar sem hlutverk þeirra sé aðallega fólgið í því að gefa upp hnit og staðsetningar á loftvarnarbyssum svo hægt sé að sprengja þær annað hvort með flugvélum eða fallbyssukúlum frá herskipum sem liggja við ströndina. Það er ekki nauðsynlegt að hafa slíkar skeytasendingar dulkóðaðar því að Japanir gætu með engu móti haft tíma til að fjarlægja eða færa þessar gríðarstóru loftvarnar- og fallbyssur sínar með skömmum fyrirvara. Því má segja að það sé nokkuð út úr korti að vera með tvo mjög mikilvæga fjarskiptamenn í fremstu víglínu í myndinni í ljósi þess að aðeins voru um 400 slíkir Navajo indíánar sem tóku þátt í stríðinu um yfirráðin á Kyrrahafi og þurftu þeir sjaldnast að vera í fremstu víglínu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þrisvar sinnum fáum við að sjá einhvers konar trúarathafnir hjá indíánunum, og eru það allt verndarathafnir. Í myndinni segir Ben, annar indíáninn, að andar látinna séu ávallt nærri líkamanum fram að því að sómasamleg greftrun hafi átt sér stað. Geri ég ráð fyrir að það sem hann kallar sómasamlega greftrun, sé gerftrun samkvæmt venjum og siðum Navajo indíána. Einnig talar hann um mikilvægi þess að fá vernd fyrir ,,Chindis” en svo nefnast illir andar eða djöflar (demons) hjá indíánunum.

Á einum stað í myndinni eiga Joe Enders og Ben Yahzee náið samtal þar sem trúmál ber á góma. Athyglisvert er að þetta samtal fer fram í Búddhahofi en á borðinu/altarinu hjá búddhastyttu í næsta herbergi eru matarfórnir. Þar sem þetta er á japanskri grundu má telja víst að um Mahayana Búddhisma sé að ræða. Tilefni samtalsins er að Joe hefur teiknað kirkju í þykkt lag af ryki á borði. Ben spyr Joe þá hvort hann sé rómversk-kaþólskur og játar hann því. Hann segist vera skírður og fermdur og að presturinn hafi meira að segja eitt sinn sagt við sig að hann væri hermaður Krists. Samt hljóti hann einhvers staðar að hafa skipt um lið á leiðinni. Ben segist þá einnig hafa verið rómversk-kaþólskur, hann hafi gengið í trúboðsskóla á verndarsvæðinu þar sem prestarnir refsuðu jafnan nemendunum harðlega fyrir að tala eigið tungumál. Kaldhæðnislegt sé hins vegar að nú skipti það einmitt alla bandarísku þjóðina miklu máli að hann tali tungumál sitt. Þarna birtast með öðrum orðum tvær ólíkar hliðar rómversk-kaþólsku kirkjunnar, önnur jákvæð og hin neikvæð. Joe upplifir hvatningu og uppörvun, honum er sagt að hann sé hermaður Krists, en Ben er nánast skipað að trúa á Guð og hlýða honum annars hljóti hann verra af. Þetta minnir vissulega á nýlendutímana þegar Biblían og byssan héldust allt of oft í hendur og allt var gert í nafni trúarinnar.

Joe virðist því hafa sagt skilið við trú sína og má glöggt greina hjá honum reiði og gremju, sem e.t.v. beinist að Guði og því óréttlæti og þeim hörmungum sem stríð er. Hann virðist reiður vegna fjarlægðar Guðs og aðgerðarleysis hans en hann getur samt ekki sagt skilið við trúarlegan bakgrunn sinn eins og sést t.d. af kirkjuteikningum hans og orðum. Þegar Joe liggur svo helsár í lok myndarinnar fer hann með maríubæn af mikilli einlægni og tekur indíáninn Ben undir með honum.

Joe er stöðugt að leita eftir fyrirgefningu, vegna þess að honum finnst hann bera ábyrgð á dauða félaga sinna í upphafsorrustu myndarinnar. Hann var þá hæstráðandi og neitaði ósk manna sinna um að fá að hörfa og sagði að þeir skildu allir framfylgja skipunum sínum. Hann var hins vegar sá eini sem komst af úr þeim hildarleik, illa særður og skaddaður á sál og líkama. Í leit sinni að réttlætingu eða fyrirgefningu berst Joe í myndinni eins og berserkur og virðist iðulega skeyta engu um eigið líf og heilsu.

Að mínu mati má segja að þema myndarinnar sé það að við skulum ekki aðeins bera virðingu fyrir indíánum heldur geti allir íbúar Bandaríkjanna fundið sér stað. Þar eru allir jafnir og allir velkomnir og öll trúarbrögð sameinuð undir bandaríska fánanum. Þó er mikilvægt að átta sig á að trúarbrögð geta bæði stuðlað að félagslegri einingu og sundrungu. Samfélagið er meira en samansafn fólks sem af tilviljun deilir sama tíma og stað. Félagslegar venjur og hefðir eru þegar til staðar þegar einstaklingurinn fæðist og mótast hann af þeim. Trúarbrögðin eru sérstaklega mikilvægur þáttur í félagslegri sameiningu samfélagsins. Trúartákn standa oft fyrir sameiningu hópsins og helgiathafnir geta tjáð eininguna þar sem einstaklingnum gefst tækifæri á því að taka á táknrænan hátt þátt í að tjá einingu samfélagsins. Sérstaklega mikilvægt er hve trúarbrögð eiga auðvelt með að hvetja átrúendurna til skuldbindingar og jafnvel fórna fyrir markmið hópsins. Trúarleg refsing getur þannig verið máttugri en veraldleg refsing. Kenningar um þessa samfélagslegu sameiningu manna leggja áherslu á jafnvægið og samræmið innan hópsins og segja að ef trúarbrögð fari inn á öll svið samfélagsins stuðli þau að mikilli sameiningu. (Sjá: Mc Guire. Religion, The Social Context, bls 188.)

Ein áhrifamesta kenningin um félagslega einingu og trúarbrögð er komin frá Durkheim og fjallar um að trúarbrögð séu tjáning félagslegra afla og hugsjóna. Þegar félagsleg sameining á sér stað, birtist hún í trúarbrögðum. Trúarbrögðin eru því í eðli sínu félagsleg og helgiathafnirnar eru leiðir til þess að tengja einstaklinginn við samfélagið. Durkheim vildi meina að í nútíma samfélögum mætti heimfæra helgiathafnir trúarbragða yfir á borgríkistrú (civil religion) samfélagsins. Hann sá t.d. engan mun á helgiathöfnum trúarbragða eins og páskum og þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 4.júlí. En þá verðum við að hafa í huga hvað borgríkistrú er samkvæmt Durkheim. Borgríkistrú er samansafn heimsmyndar, átrúnaðar og helgiathafna, sem tengjast nútíð, fortíð og framtíð þjóðarinnar og hafa á sér yfirskilvitlegan blæ. Borgríkistrú er tjáning sameiningar þjóðarinnar og er hafin yfir viðmið kirkjudeilda, siðferðis og trúarbragða. Borgríkistrú hefur sínar eigin helgiathafnir þar sem meðlimirnir minnast merkilegra atburða og endurnýja samband sitt við þjóðfélagið. Í Bandaríkjunum eru ,,þjóðarhelgidómar” t.d. fæðingarstaðir mikilvægustu forsetanna. Þjóðfáninn er einnig ,,helgidómur”. Borgríkistrú hefur einnig goðsagnir og dýrlinga, en Lincoln er gott dæmi um dýrling í ríkistrú. (Sjá: Mc Guire. Religion, The Social Context, bls 188, 192.)

Í þessari mynd kemur glöggt fram hvað Borgríkistrúin er sterk í Bandaríkjunum og er t.d. bandaríski fáninn eitt sterkasta dæmið um það.

Einnig mætti segja að undiralda myndarinnar sé eftirfarandi spurning: ,,Þarf kristinn maður að vera friðarsinni?” Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess hvernig reynt var að tala um sameiningu allra kynþátta og trúarbragða undir bandaríska fánanum í kjölfar hryðjuverkaárásinnar á tvíburaturnana í New York þann 11.sept. 2001. Og því er aftur spurt: ,,Þarf kristinn maður að vera friðarsinni?”

Hægt er að reyna að svara þessari spurningu, eða í það minsta viðra hana í samhengi við siðfræðina og þann kristna mannskilning sem þar er að finna. Í kristinni hefð er yfirleitt boðað annars vegar að maðurinn sé skapaður eftir Guðs mynd ,,Imago Dei”, og svo hins vegar að hann (maðurinn) sé syndugur. Svo er það metið á mismunandi hátt hvað í því felst og vægi þess að vera skapaður eftir mynd Guðs og að vera breyskur. Að vera skapaður í Guðs mynd merkir í raun þríþætt hlutverk mannsins, því að hann er kallaður til samfélags andsvars og ábyrgðar sem grundvallast á: A) Ábyrgð hans gagnvart Guði (coram Deo), B) ábyrgð hans gagnvart öðrum mönnum (coram hominibus) og C) ábyrgð gagnvart umheiminum (coram mundo). Guðsmyndin er undirstaða manngildis og mannhelgi. Manneskjan er í persónulegum tengslum við Guð og náungann og kærleikurinn kemur með samfélagslega kröfu um réttlæti. Trú sem starfar í kærleika og kærleikur sem starfar í réttlæti. Kristinn mannskilning má einnig kalla persónubundinn í þeim skilningi að gert er ráð fyrir að í hverjum manni sé einhver ,,ég”, sem gefi manninum einstaklingseðli hans og geri hann frábrugðin öllum öðrum. Þetta ,,ég” mannsins má kalla sál hans eða anda. Þessi kjarni persónuleikans er endanleg skýring á viðbrögðum hans, jafnvel þótt engin leið sé að skoða hana raunvísindalega. Hann mótast í sambandi mannsins og samskiptum við aðra menn. Manneskjan, sköpuð í Guðs mynd, er jafngild þrátt fyrir mun kynja, kynþátta, þjóðernis, þjóðfélagsstétta. Allir menn hafa sama hæfileikann til vitundar um sjálfa sig, samfélags við Guð og umhyggju fyrir öðrum. (Sjá: Bexell og Grenholm. Siðfræði af sjónarhóli guðfæði og heimspeki. Bls 224.)

En samkvæmt kristnum mannskilningi er manneskjan einnig syndug. Það er hyldýpi milli hugsunar og raunveruleika, milli hins sann-mannlega lífs og þess lífs sem mennirnir lifa í raun og veru. Manneskjunni tekst ekki að þroska hæfileikann til samfélags við Guð, eða hæfileikann til að bera umhuggju fyrir öðrum manneskjum eða umhverfinu og náttúrunni. Þessi veikleiki einkennir alla menn. (Sjá: Bexell og Grenholm. Siðfræði af sjónarhóli guðfæði og heimspeki. Bls 224.)

Um leið og maður spyr spurningarinnar ,,Þarf kristinn maður að vera friðarsinni?” verður maður einnig að spyrja: ,,Getur stríð verið siðferðislega réttlætanlegt?” Flestir eru sammála því að kjarnorkustyrjöld sem eyða muni nánast öllu lífi á jörðunni sé aldrei réttlætanlegt, en samt er margt fólk á þeirri skoðun að hernaðarleg íhlutun sé oft nauðsyn, sbr. árásir Bandaríkjamanna á Afganistan og Írak. En er stríð þá einhvern tímann siðferðislega ásættanlegt? Í kristinni hefð og mannhyggjunni má finna það sjónarmið friðarsinna að aldrei megi grípa til ofbeldis af nokkru tagi. En um leið telja margir að stríð sé siðferðislega réttlætanlegt/ásættanlegt ef viss skilyrði eru uppfyllt, t.d. að ofbeldi sé í algjöru lágmarki og aðeins sem örþrifaráð. (Sjá: Bexell og Grenholm. Siðfræði af sjónarhóli guðfæði og heimspeki. Bls 432.)

Um trú Navajo indíána er það helst að segja að hún er samofin öllum athöfnum daglegs lífs. Trú þeirra hefur verið útskýrð sem líf í sjálfu sér. Allt sem líf hefur, fólk, dýr, plöntur, fjöllin og jörðin sjálf, er skylt. Hver vera er samofin anda sínum, sem gefur henni líf og tilgang sem er svo innan ytra skipulags umheims. Markmið Navajo indíána er að viðhalda jafnvæginu á milli einstaklingsins og umheimsins og lifa í samhljómi við náttúruna og skaparann. En til að ná þessu markmiði sínu þurfa Navajo indíánar að ástunda trúariðkanir sínar rétt. (Sjá: http://www.xpressweb.com/zionpark/index3.html.)

Í kvikmyndinni koma fram trúarlegar athafnir hjá indíánunum, þar sem þeir virðast vera að undirbúa sig fyrir að fara í stríð. Ég fann á netinu svolítið um verndarsöng Navajo indíána og má vera að hér sé um að ræða sama sönginn og fram kemur í myndinni, þó skal ég ekki fullyrða neitt um það. Þessi verndarsöngur fylgir með til fróðleiks.

Verndarsöngur Navajo indíána:
(To be sung on going into battle.)

I.
Now, Slayer of the Alien Gods, among men am I.
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Rubbed with the summits of the mountains,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Now upon the beautiful trail of old age,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.

II.
Now, Offspring of the Water, among men am I.
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Rubbed with the water of the summits,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Now upon the beautiful trail of old age,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.

III.
Now, Lightning of the Thunder, among men am I.
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Rubbed with the summit of the sky,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Now upon the beautiful trail of old age,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.

IV.
Now, Altsodoniglehi, among men am I.
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Rubbed with the summits of the earth,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.
Now upon the beautiful trail of old age,
Now among the alien gods with weapons of magic am I.

Frumtextinn með enskri og íslenskri millilínuþýðinguI.
PRELUDE.
Sinaháse nagée nagée alíli kat bïtása
My thoughts run. Alien gods, | alien gods | weapons | now | I walk among them.
Hugur minn hvarflar. Framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra.

A’yeyeyeyahai`
(Meaningless).
(Án merkingar)

1. Kat Nayénëzgani si nïslín nitá`
Now | Nayénezgani | I | am | people among.
Núna | Nayénezgani | ég |er | á meðal folks.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods, | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

2. Dzïl hotsï’s tsï’da hweztaníta`
Mountains | tops of | truly | I am rubbed with,
Fjöll | tindar | sannarlega | er mér núið upp úr

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods, | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

3. Kat sáan nagée kat biké hozóni si nïslín
Now | in old age | wandering | now | its trail | beautiful | I | am.
Núna | í hárri elli | velti vöngum | núna | það er slóð | falleg(ur) | ég |er.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

II.
1. Kat Tóbadzistsíni si nïslín nitá`
Now | Tóbadzistsíni | I | am, | among them
Núna | Tóbadzistsíni | ég | er, | á meðal þeirra

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

2. Tó` hotsï’s tsï’da hweztaníta`
Water | tops of | truly | I am rubbed with.
Vatn | yfirborð | sannarlega | er mér núið upp úr.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

3. Kat sáan nagée kat biké hozóni si nïslín
Now | in old age | wandering | now | its trail | beautiful | I | am
Núna | í hárri elli | velti vöngum | núna | það er slóð | falleg(ur) | ég |er.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

III.
1. Kat Bëlïndzïnotlis si nïslín nitá`
Now | Bëlïndzïnotlis | I | am | among them.
Núna | Belindzinotlis | ég | er, | á meðal þeirra

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

2. Ya hotsï’s tsï’da hweztaníta`
Sky | top of | truly | I am rubbed with,
Himinn | við hinn hæsta | sannarlega | er mér núið upp úr.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

3. Kat sáan nagée kat biké hozóni si nïslín
Now | in old age | wandering | now | its trail | beautiful | I | am,
Núna | í hárri elli | velti vöngum | núna | það er slóð | falleg(ur) | ég |er.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

IV.
1. Kat A’ltsodoniglehi si nïslín nitá`
Now | A’ltsodoniglehi | I | am, | among them,
Núna | A’ltsodoniglehi| ég | er, | á meðal þeirra

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

2. Ni` hotsï’s tsï’da hweztaníta`
Earth | top of | truly | I am rubbed with,
Jörð | yfirborð | sannarlega | er mér núið upp úr.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra

3. Kat sáan nagée kat biké hozóni si nïslín
Now | in old age | wandering, | now | its trail | beautiful | I | am,
Núna | í hárri elli | velti vöngum | núna | það er slóð | falleg(ur) | ég |er.

nagée nagée alíli kat bïtása
alien gods, | alien gods | weapons | now | among them I walk.
framandi guðir, | framandi guðir | vopn | núna | geng ég á meðal þeirra.(Sjá: http://www.sacred-texts.com/nam/nav/nmps/nmps08.htm.)

HeimildarskráBexell, Göran & Grenholm, Carl-Henric. Aðalsteinn Davíðsson þýddi. Siðfræði, Af sjónarhóli guðfræði og heimspeki. 2001. Skálholtsúgáfan. Reykjavík.

McGuire, Meredith B. Religion, The Social Context (fourth edition). 1997. Wadsworth Publishing Company. USA.

Rice, John & Batteer, Joe. Windtalkers. DVD Region 2. Widescreen Version 2.40:1. 2002. Metro-Goldwyn-Mayer Pictures Inc.

Veraldarvefurinn. http://www.sacred-texts.com/nam/nav/nmps/nmps08.htm Efni sótt 04.nóvember 2003.

Veraldarvefurinn. http://www.suntimes.com/ebert/ebert_reviews/2002/06/061404.html Efni sótt 04.nóvember 2003.

Veraldarvefurinn. http://www.xpressweb.com/zionpark/index3.html Efni sótt 04.nóvember 2003.

Persónur úr trúarritum: Chindis (illir andar, djöflar í trú Navajo indiána), Búddha
Sögulegar persónur: Tojo, Hitler, George Washington
Guðfræðistef: Hughreysting, huggun, traust, miskunnsemi, hjálp, fyrirgefning, dauði
Siðfræðistef: Stríð, manndráp, framfylgja skipunum, svindl/blekking, hetjudáð, eiður, ofbeldi, pyntingar, fjárhættuspil, kynþáttahatur/kynþáttafordómar, ættjarðarást, þjóðarstolt, samviskubit, eftirsjá, hefnd, vernd, ást, stolt, ótti, einelti, lygi, vinátta, stríðsglæpur, heiðrun, mismunun, trúnaður, refsing, friður, líknardráp, sorg, reiði, fyrirgefning, sátt
Trúarbrögð: Trúarbrögð Navajo indíána, rómversk-kaþólska kirkjn , mahayana búddhismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Trúboðsstöð, grafreitur, búddhahof, kirkja
Trúarleg tákn: Kross, kross á leiði, kross í hálsfesti, búddhalíkneski, búddhaaltari, fórnir
Trúarleg embætti: Rómversk-kaþólskur prestur, trúboðar, hermaður Krists
Trúarlegt atferli og siðir: Verndarathöfn Navajo indíána, smyrja ösku á enni, greftrun, kristin bæn, trúarþula, ferming, smurning með vígðu vatni, smurning með vígðri olíu, messa, Navajo bæn, Navajo minningarathöfn, Navajo barnablessun, maríubæn, fánahylling
Trúarleg reynsla: Vernd