Kvikmyndir

xXx

Leikstjórn: Rob Cohen
Handrit: Rich Wilkes
Leikarar: Vin Diesel, Asia Argento, Samuel L. Jackson, Marton Csokas, Michael Roof, Danny Trejo, Eve, Tom Everett, Thomas Ian Griffith, Richy Müller, Werner Dähn og Petr Jakl
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 124mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0295701

Ágrip af söguþræði:
Ofursvalur spennufíkill með langan afbrotaferil að baki er neyddur af bandarísku leyniþjónustunni til að njósna um glæpasamtök stjórnleysingja í Tékklandi, sem undirbúa efnavopnaárás á nokkrar stærstu borgir heims.

Almennt um myndina:
Nautheimsk og illa gerð hasarmynd þar sem hraðinn og sprengingarnar virðast skipta mestu máli en glóran er skilin alveg eftir. Velgengni myndarinnar í kvikmyndahúsum byggir vonandi eingöngu á vel heppnaðri markaðssetningu en ósennilegt er að framhaldsmyndirnar verði margar, jafnvel þótt þegar sé byrjað að vinna að þeirri næstu.

Allt frá tilkomu James Bond myndanna hafa reglulega verið gerðar hasarmyndir og jafnvel skopstælingar, sem áttu að slá þær út í vinsældum en eru nú flestum gleymdar. Má þar nefna The Liquidator eftir Jack Cardiff frá árinu 1965, Our Man Flint eftir Daniel Mann frá því sama ári og No. 1 of the Secret Service eftir Lindsay Shonteff frá árinu 1977, sem allar teljast frekar slakar þótt gæðin séu mun meiri en í hörmunginni xXx. Í rauninni á kvikmyndin xXx þó lítið skylt með Bond-myndunum að mannkynsfrelsunarþemanu undanskildu auk nokkurra léttvægra tilvísanna á borð við vísindamanninn Q og lokaatriðið þar sem hetjan liggur í faðmi ástmeyjarinnar.

Hægt er að nefna ótal dæmi um hversu heimskuleg myndin er. Aðalsöguhetjan, hinn ofursvali Xander Cage, stekkur t.d. tugi metra upp í loftið á mótorhjóli sínu við fáránlegustu aðstæður, stingur af bæði snjósleða og snjóflóð á snjóbretti og nær jafnvel að halda sér föstum á óhagganlegri stöng þegar snjóflóðið loks flæðir yfir hann og sópar öllu öðru í burt. Glæpasamtökin eru álíka illa ígrunduð, en þar á bæ er ofurskvísan Yelena uppfrædd um allar fyrirætlanir þeirra og henni leyft að ráfa um hvert sem er enda þótt ljóst sé að hún sé erindreki rússnesku leyniþjónustunnar og geti ljóstrað öllu upp með nægum fyrirvara til að stöðva fyrirætlanir þeirra. Aðalskúrkurinn Yorgi montar sig meira að segja af því að hafa „notfært“ sér stúlkuna allan tímann, sem er ekki til marks um mikla vitsmuni!

Helstu kostir myndarinnar eru hin gullfallega höfuðborg Tékklands, persónutöfrar gæðaleikarans Samuels L. Jackson, ítalska leikkonan Asia Daríódóttir Argento (sem lék t.d. í The Stendhal Syndrome, ágætri gulmynd föður síns) og glæsilegur Pontiac GTO árgerð 1966, sem því miður er slátrað undir lokin með fáránlegum aukabúnaði.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Aðalsöguhetjan Xander Cage er hér veraldlegur mannkynsfrelsari, enda tekst honum að lokum að stöðva ætlunarverk hins djöfulega Yorgis um að myrða milljónir manna með efnavopnum og hleypa þannig af stað blóðugri heimsstyrjöld til þess eins að koma á alheimsstjórnleysi. (Við gerum ekki ráð fyrir að hafa eyðilagt fyrir neinum þótt hér hafi verið upplýst um endi myndarinnar enda sjálfgefinn frá upphafi.)

Athygli vekur að Xander Cage segir um miðbik myndarinnar að frelsari heimsins verði að vera sáttur við hann eins og hann er áður en hann taki að sér að bjarga honum. („Before you ask someone to save the world, you’d better make sure they like it the way it is.“) Það sjónarmið er mjög í anda þeirra heimsendamynda, sem varða rómversk-kaþólsku kirkjuna, en markmið söguhetjanna þar er jafnan að stöðva fyrirætlanir djöfulsins og slá heimsendinum á frest. Dæmi um slíkt eru kvikmyndirnar End of Days eftir Peter Hyams frá árinu 1999 og Lost Souls eftir Janusz Kaminski frá árinu 2000. Þessi ,,kaþólska“ framsetningin er þó á skjön við heimsendamyndir kristinna bókstafstrúarmanna, þar sem endurkomu Jesú Krists er vænst að stuttu valdaskeiði djöfulsins loknu. Sömuleiðis er hún á skjön við þær heimsendamyndir, þar sem endatímastefin eru færð aftur í fortíðina eins og tíðkast hefur hjá mörgum kvikmyndagerðarmönnum með lútherskan eða annan mótmælendabakgrunn.

Enda þótt ekki sé um neinar hreinar trúarlegar vísanir að ræða í þessu tilfelli og rómversk-kaþólska kirkjan komi ekki við sögu, má vel líta á Xander Cage sem veraldlega útgáfu af hetjum á borð við Arnold Schwarzenegger í hlutverki Jerichos Cane í kvikmyndinni End of Days og skúrkinn Yorgi sem hliðstæðu djöfulsins eða anti-krists í slíkum myndum.

Sennilega munu femínistar líta kvikmyndina hornauga, enda ófögur mynd gefin af konum í henni. Gott dæmi um það er t.d. veisla tékknesku glæpamannanna, þar sem nokkrum tugum fáklæddra kvenna er komið fyrir í brunni fyrir utan höllina, en gestirnir geta tekið með sér dömu að eigin vali á leiðinni inn rétt eins og um kampavínsflöskur í ís væri að ræða.

Verst er þó hvað kvikmyndin er leiðinleg, en heimskan sem tröllríður henni er svo gengdarlaus að orðið nauðgun fær nýja og víðtækari merkingu. Titill myndarinnar er því í raun vel við hæfi.

Guðfræðistef: frelsun, sköpunin, heimsendir
Siðfræðistef: manndráp, þjófnaður, lygi, ofbeldi, vændi, heimska
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja