Kvikmyndir

Yi ge dou bu neng shao (Not One Less)

Leikstjórn: Zhang Yimou
Handrit: Xiangshen Shi
Leikarar: Minzhi Wei, Huike Zhang, Zhenda Tian, Enman Gao, Zhimei Sun, Yuying Feng, Fanfan Li, Zhang Yichang, Xu Zhanqing, Hanzhi Liu, Ma Guolin, Wu Wanlu, Liu Ru, Wang Shulan og Fu Xinmin
Upprunaland: Kína
Ár: 1999
Hlutföll: www.imdb.com/Title?0209189
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ung stúlka er ráðin til að vera forfallakennari í kínverskum sveitaskóla vegna þess að kennarinn þurfti að fara burt úr þorpinu til að sinna sjúkri móður sinni. Stúlkan er svo ung að hún hefur tæpast lokið skóla sjálf. Hún fær það verkefni að kenna nemendunum en á einnig að gæta þess að enginn þeirra hætti í skólanum því það var þegar orðið vandamál hve margir nemendur höfðu hætt. Þegar tíu ára drengur hverfur einn daginn og fer til borgarinnar til að vinna sér inn peninga til að hjálpa fjölskyldunni sinni fer hún á eftir honum að leita hans.

Almennt um myndina:
Kínverski kvikmyndaleikstjórinn Zhang Yimou er fæddur árið 1950 í Xian í Kína. Hann lauk námi frá Kvikmyndakademíunni í Peking árið 1982 og er nú einn þekktasti kínverski leikstjóri samtímans. Hann hefur vakið mikla athygli víða um heim allt frá því að myndir hans Ju Dou frá 1990 og Da hong deng long gao gao gua (Rauði lampinn) frá 1991 voru tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Eftir að Yimou útskrifaðist starfaði hann sem kvikmyndatökumaður við nokkrar myndir. Fyrsta mynd hans sem leikstjóri, Hong gao liang (Red Sorghum) er frá árinu 1987 og vakti hún strax athygli á honum en hún fékk Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín sem besta myndin árið 1989. Síðan hafa myndir hans unnið til margra verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Kvikmyndin Yi ge dou bu neng shao (Not One Less) frá 1999 er ein þeirra mynda hans sem vakið hefur athygli. Hún hlaut Gullna ljónið á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum það ár. Myndin þykir gefa góða innsýn í líf og aðstæður í afskekktum byggðum í Kína samtímans enda er hún byggð á raunverulegum atburðum. Það er athyglisvert við myndina að í henni eru engir atvinnuleikarar. Flestir í henni eru í rauninni að leika sjálfa sig. Bæjarstjórinn er raunverulegur bæjarstjóri, kennarinn er kennari í þorpi, börnin eru börn í sveitaskóla og forfallakennarinn Wei Minzhi er leikin af 13 ára gamalli skólastúlku Wei Minzhi. Það sýnir snilli Zhang Yimou hve vel honum tekst að vinna úr efnivið sínum og leikstýra þessum hópi áhugaleikara. Þá sannar Yi ge dou bu neng shao að það þarf ekki alltaf mikla peninga til að gera góða kvikmynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í kvikmyndinni Yi ge dou bu neng shao (Not One Less) eru ekki mörg trúarstef. Þar er þó að finna gildismat og siðferðisstef sem eru áhugaverð. Gildi einstaklingsins og umhyggjan fyrir honum er sett í öndvegi í myndinni. Umhyggja forfallakennarans unga fyrir nemanda sínum er einstök og einurð hennar við að leita hans aðdáunarverð. Einn drengur í milljónahafinu verður allt í einu mikilvægari en allt annað. Ekkert annað kemst að en að finna hinn týnda. Þá er fátækt og afleiðingar hennar sett í brennidepil. Ennfremur lýsir myndi vel fátæklegum aðstæðum í skólum í afskekktum héruðum Kína. Borgarsamfélaginu og dreifbýlinu er á vissan hátt stillt upp sem andstæðum. Fátækt fólk í dreifbýlinu flýr aðstæður sínar og fer til borgarinnar í leit að atvinnu. Þar eru börn ekki undanskilin. Í borginni bíður þeirra þó oft ekkert annað en betl. Fjölmiðlar og hlutverk þeirra koma einnig við sögu og dregur myndin vel fram áhrifamátt þeirra og ábyrgð.

Eitt af því sem gerir myndina Yi ge dou bu neng shao áhugaverða út frá guðfræðilegum sjónarhóli er hve hún felur í sér sterka hliðstæðu við dæmisögu Jesú um týnda sauðinn, einkum í útgáfu Matteusarguðspjalls (18.12-14) þar sem sagan er sett í safnaðar- eða samfélagssamhengi. Forfallakennarinn ungi skilur nemendahópinn sinn eftir þegar einn úr honum er týndur og fer að leita og gefst ekki upp fyrr en hann er fundinn. Nemendurnir eru reyndar ekki skildir eftir ábyrgðarlausir þar sem þeir aðstoða kennarann sinn við að komast til borgarinnar. Það verða líka fagnaðarfundir þegar hún snýr aftur með týnda nemandann. „Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem ekki villtust frá. Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist“ (Mt 18.13-14).

Hliðstæður við texta trúarrits: dæmisaga Jesú um týnda sauðinn í Mt 18.12-14
Siðfræðistef: einurð, fátækt, gildi einstaklingsins, kærleikur, umhyggja