Leikstjórn: Zhang Yimou
Handrit: Feng Li, Bin Wang og Zhang Yimou
Leikarar: Jet Li, Tony Leung Chiu Wai, Maggie Cheung, Ziyi Zhang, Daoming Chen og Donnie Yen
Upprunaland: Kína
Ár: 2002
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Sögusviðið er fyrir 2000 árum í dögun Qin konungsveldis, fyrsta keisara Kína, þess sama og reisti kínamúrinn, en konungsríki takast þar á um völdin. Þrír leigumorðingjar, Brotið sverð (Tony Leung Chiu Wai), Snjódrífa (Maggie Cheung) og Himinn (Donnie Yen), sitja um Qin, konung norður héraðsins (Daoming Chen), en honum er að takast að leggja hin konungsríkin að velli. Þegar Nafnlaus, nánast óþekktur lögreglumaður (Jet Li), sigrar loks leigumorðingjana þrjá er honum boðið til konungshallarinnar til að greina konunginum frá óvæntum afrekum sínum.
Almennt um myndina:
Þegar kvikmyndunum Crouching Tiger, Hidden Dragon (Ang Lee: 2000) og Rashômon (Akira Kurosawa: 1950) er blandað saman er útkoman Ying xiong (þ.e. Hetja á íslensku), nýjasta afrek meistara Yimou Zhang. Eins og kvikmyndin Crouching Tiger, Hidden Dragon fjallar myndin um lífsgildi, ást og heiður bardagamanna sem gæddir eru óvenjulegum hæfileikum. Flétta myndarinnar minnir hins vegar meira á Rashômon, þar sem við fáum stöðugt nýjar útgáfur af því sem gerðist. Þá er einnig margt í kvikmyndatökunni og sviðssetningunni sem minnir á verk meistara Kurosawa, sérstaklega fjöldasenurnar.
Þótt söguþráður myndarinnar gefi það kannski til kynna þá er hér ekki um spennumynd að ræða. Hún er í raun frekar myndrænt ljóð frá upphafi til enda. Kvikmyndataka Christopher Doyle (The Quiet American og In the Mood for Love) er með því flottasta sem sést hefur á hvíta tjaldinu og er hver einasti rammi úthugsaður. Lýsing, klipping, og römmun er skipulögð niður í minnstu smáatriði. Tónlist Dun Tan (sá sami og gerði tónlistina fyrir Crouching Tiger, Hidden Dragon) er seiðmagnandi og gefur kvikmyndatökunni lítið eftir. Fyrir vikið er myndin eitt mesta augna- og eyrnakonfekt sem ég hef séð svo árum skiptir.
Kvikmyndin Hetja var tilnefnd til óskarsverðlauna, en myndir Yimou Zhang hafa tvisvar áður verið tilnefndur til sömu verðlauna, þ.e. Rauði lampinn (1992) og Ju Dou (1990). Óhætt er að segja að Yimou Zhang sé einn hæfasti og áhugaverðasti kvikmyndaleikstjóri samtímans. Þetta er þó í fyrsta sinn sem Yimou Zhang gerir mynd um sjálfsvarnarlist (martial arts) en hingað til hefur hann aðallega fengist við listrænt drama. Leikarar myndarinnar eru meðal frægustu og hæfustu leikarar Asíu, en allir standa þeir sig með prýði, meira að segja Jet Li, en eins og flestir vita hefur hann leikið í gleðiskógarmyndum á borð við Romeo Must Die (Andrzej Bartkowiak: 2000), Kiss of the Dragon (Chris Nahon: 2001) og The One (James Wong: 2001). Tony Leung Chiu Wai (Brotið sverð) og Maggie Cheung (Snjódrífa) bera þó af en þau höfðu áður unnið eftirminnilegan leiksigur í meistaraverkinu Í ástarhug/ Fa yeung nin wa (Kar-wai Wong: 2000).
Að lokum má geta þess að þótt baksvið myndarinnar sé sögulegt er söguþráðurinn sjálfur skáldskapur frá upphafi til enda.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér verður ljóstrað upp um óvæntan endi myndarinnar, en það getur skemmt fyrir þeim sem ekki hafa séð hana.
Í myndinni birtist grunnur kínverskra trúarbragða skírt, en í stuttu máli gengur hann út á það að einstaklingurinn skiptir ekki mestu máli heldur heildin og hvernig hún vinnur saman. Allt gengur út á hinn rétta samhljóm. Þjáningar einstaklingsins eru því léttvægar í ljósi hagsmuna heildarinnar.
Þessi afstaða sést t.d. skýrt á því að Himinn og Snjódrífa eru tilbúin að falla fyrir Nafnlausum til þess að tryggja að hann komist nálægt Qin og geti því mögulega myrt hann. Og enn skýrar sést þetta á því að Brotið sverð og Nafnlaus skulu báðir hætta við að hefna sín á Qin (þrátt fyrir grimmdarverk hans) þegar þeir komast að því að hernaður hans er eina leiðin til að tryggja frið til framtíðar í Kína, eða eins og Brotið sverð orðar það: „Fólkið hefur þjáðst í áraraðir vegna hernaðar. Aðeins konungurinn í Qin getur stöðvað þessa óstjórn með því að sameina alla undir himninum.“ Nafnlaus, sem drifin var áfram af hefnd, reynir ekki einu sinni að flýja eftir að hafa hætt við að drepa konunginn enda verður hann að deyja sem fordæmi fyrir aðra.
Brotið sverð lætur einnig lífið þegar hann reynir að útskýra fyrir Snjódrífu viskuna í því að láta Qin lifa, en í raun er hann holdgerfingur kínversks trúarbragða í myndinni. Í því sambandi er áhugavert að skoða orð Qins eftir að hann hefur skoðað skrautskrift Brotins sverðs á orðinu „sverð“, en í skrautskriftinni á að felast sverðtækni hans:
„Ég var að átta mig á því. Skautskrift Brotins sverðs fjallar ekki um sverðtækni heldur æðstu hugsjón skylmingatækninnar. Fyrsta markmið hennar er fullkomin sameining mannsins og sverðsins. Þegar þessi eining hefur náðst getur jafnvel strá orðið vopn. Annað markmið er að sverðið verði í hjarta manns, jafnvel þótt það sé ekki í höndum manns. Maður getur slegið til óvinarins á hundraðfölldum hraða, jafnvel með berum höndum. Æðsta markmiði skylmingatækninnar hefur hins vegar verið náð þegar sverðið er hvorki í höndinni né eða hjartanu. Skylmingamaðurinn hefur sæst við umheiminn. Hann sver þess að drepa ekki framar og færa mannkyninu frið.“
Það er á þessari stundu sem Nafnlaus hættir við að hefna sín á konunginum. Í staðinn snýr hann á brott með orðunum: „Tryggðu öllum frið“. Niðurstaða myndarinnar er því sú að Raunveruleg hetjudáð felist ekki í því að ná fram hefndum heldur í því að fórna sjálfum sér fyrir hagsmuni heildarinnar.
Litir eru notaðir meðvitað í myndinni. Í endurminningunum breytist liturinn á fötum persónanna frá rauðum (litur ímyndarinnar) í bláan (sýnilegur raunveruleiki), svo í hvítan (sannleikur) og loks í grænan (uppljómun/friður).
Konfúsíusisminn er einn helsti grunnur kínverskra trúarbragða en rit Konfúsíusar kemur einmitt fyrir í myndinni. Ritin líta reyndar út eins og viðardrumbar sem raðaðir hafa verið upp í hring en hér er í raun og veru um bókrollur að ræða. Greina má þar nöfn tveggja bóka; Chun Qiu og Zuo Zhuan. Chun Qiu (Andi haustsins) var skrifuð af Konfúsíusi og fjallar um sögu Kína frá 722 til 481 f.Kr. en Zuo Zhuan er annað sögurit, sem er að hluta byggt á Chun Qiu.
Að lokum má geta þess að trú á framhaldslíf kemur fyrir í myndinni en Snjódrífa segir eitthvað á þá leið að hún muni „brosa af himnum“ ef hún sjái tákn þess að Qin sé dauður.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Chun Qiu
Sögulegar persónur: Qin
Guðfræðistef: líf eftir dauðann, fórn
Siðfræðistef: stríð, morð, betl, hugrekki, heiður, hefnd, öfundsýki, svik, friður
Trúarbrögð: Konfúsíusismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki
Trúarlegt atferli og siðir: fórn
Trúarleg reynsla: uppljómun