Kvikmyndir

You Can Do a Lot with 7 Women

Leikstjórn: Fabio Piccioni [undir nafninu F.A. King]
Handrit: John Galligan, Farouk Agrama, Robert Friedman og Ted Russof
Leikarar: Richard Harrison, Marcella Michelangeli, Maria Luise Zetha, Ahmed Ramzy, Aldo Bufi Landi, Luis Williams, Gianni Gori, Piera Viotti og Lorenzo Piani
Upprunaland: Ítalía og Egyptaland
Ár: 1971
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 2.00:1 (var 2.35:1)

Ágrip af söguþræði:
Rannsóknarlögreglumaðurinn Mike Miller frá Interpol einsetur sér að koma upp um glæpasamtök sem eiga sök á dauða vinkonu hans en þau nota sjö fagrar fyrirsætur til að smygla heróíni til Egyptalands.

Almennt um myndina:
Ferlega slæm harðhausamynd með gamansömu ívafi en húmorinn einkennist að mestu af hnefahöggum og langdregnum eltingarleikum þar sem flestir ofleika hvað mest þeir geta. Kvikmyndatakan er samt nokkuð ásættanleg og egypsk dægurlögin eru sum nokkuð áheyrileg.

Titill myndarinnar á íslensku myndbandsútgáfunni er Vændi á vegum mafíunnar. Sennilega væri þó betra að nefna hana Sjö konur eru til margra hluta nytsamlegar í samræmi við enska titilinn You Can Do a Lot with 7 Women, enda fjallar hún um heróínsmygl fyrirsætanna en ekki vændi. Íslenski textinn verður reyndar að teljast ansi frumlegur á köflum eins og þegar ‚geirvörtur‘ eru þýddar sem ‚brjóstvörtur‘.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin snýst fyrst og fremst um hetjudáðir ofursvals rannsóknarlögreglumanns, sem flettir ofan af forhertum eiturlyfjasmyglurum. Hið góða sigrar því hið illa að lokum, en trúarstefin eru þó af skornum skammti.

Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, eiturlyfjasmygl, vændi, mannrán